Fréttabréf ágúst 2016. Ágætu félagar, komið þið öll blessuð og sæl. Nú er Stóru-ferðinni okkar ný lokið. Tókst hún mjög vel, fengum gott veður þó það hafi komið smá væta undir lok ferðar. Í ferðina komu 117 bílar sem er mesti fjöldi bíla sem hefur verið í Stóru-ferð. Á lokahófinu var dekkað borð fyrir 232 félaga þar af voru 6 börn. Það var kvenfélag Aðaldælinga sem sá um matinn, sem rann ljúft ofan í okkur félagana. Stulli og Danni sáu svo um að allir dönsuðu af sér skóna til kl: 02.30. Það var almenn ánægja með Stóru-ferðina og héldu allir glaðir heim eða áfram í fríið. Helgina 12.-14. ágúst var farið í helgarferð í Hverinn á Kleppjárnsreykjum. Þar mættu um 40 bílar .Við fengum að vera inni á veitingastaðnum, bæði föstudags og laugardagskvöld. Á föstudagskvöldinu var söngbókin okkar góða tekin fram og sungið við undirleik Sigga Hannesar nr. 125. Á laugardeginum spiluðum við Braggabingó og um kvöldið var söngbókin aftur tekin fram og sungið var við undirleik þeirra Sigga Hannesar nr. 125 og Gulla Valtýs nr. 200. Takk fyrir spilamennskuna strákar. Við fengum bara gott veður, það fór að rigna seint á laugardagskvöldinu og rigndi alla nóttina. Félagar fóru snemma að huga að heimferð, það átti að hvessa þegar leið á daginn.
Árshátíð/Lokaferð: Þar sem við gátum ekki fengið leyfi hjá fyrirtækjum og verslunum sem eru nálægt hótel Örk, til að fá afnot á bílastæðum þeirra og okkur hugnaðist ekki að vera með bílana á tjaldstæðinu, svo Örkin var slegin af. Nú voru góð ráð dýr og niðurstaðan er komin. Við sleppum furðufataferðinni þetta árið en verðum í staðinn með Árshátíð/Lokaferð á Laugalandi í Holtum helgina 16.-18. September. Við höfum sama háttinn á og undanfarin ár að þið félagar góðir pantið á árshátíðina hjá formanni og leggið inn á reikning félagsins. Þetta verður betur auglýst er nær dregur eða eftir mánaðamótin. Lokadagur fyrir pöntun á árshátíðina verður mánudagurinn 12. September. Það verður margt til skemmtunar, og boðið verður upp á fordrykk og þriggja rétta hátíðaratseðil sem kvenfélagið Framtíðin sér um að framreiða. Hljómsveitinn Feðgarnir sá um að allir skemmti sér vel.
Nýir félagar:
Nr. 109 Elís F. Gunnþórsson og Sigrún Svava Thoroddsen, 230 Reykjanesbæ
Nr. 210 Gunnar Fannberg Jónsson og Svanfríður Guðrún Guðmundsdóttir 210 Garðabæ.
Nr. 419 Þórður Ársælsson 300 Akranes.
Bestu kveðjur frá stjórn og nefndum. Anna Pálína Magnúsdóttir formaður