Fréttabréf mars 2019

Heil og sæl kæru félagar. 

Þegar ég byrjaði þetta fyrsta fréttabréf mitt koma upp í hugann allar þær góðu stundir sem við hjónin höfum átt með ykkur í gegnum tíðina. Ómetanlegar gæðastundir. Það er sannarlega ríkjandi spenna fyrir komandi sumri sem vonandi verður okkur öllum farsælt og gott í alla staði. Stjórn og nefndir hafa unnið ötult vetrar starf í þágu félagsins sem mun meðal annars skila sér í nýju félagatali á komandi ferðafundi sem verður haldin þann 20. apríl  kl.14:00 í félagsheimilinu Fólkvangi á Kjalarnesi. Ég veit að þessi dagsetning gæti orkað tvímælis fyrir suma en því miður náðum við ekki annarri lendingu þrátt fyrir að hafa byrjað að leita að heppilegum stað mjög tímalega. En fólk var samt á undan okkur að taka frá sali fyrir fermingar og fleira. Við vonumst samt til að sjá ykkur sem allra flest á þessum fyrsta og einum mest spennandi fundi ársins. Við munum að sjálfsögðu bjóða upp á kaffi og með því á ferðafundinum. 

Ferða og skemmtinefnd hafa unnið óslitið að því að gera ferðir okkar á komandi sumri sem best úr garði og það verður allt kynnt þarna. Ég má að sjálfsögðu ekki upplýsa neitt um hvert við förum en ég má þó segja frá því að við munum hitta Flakkara í einni helgarferðinni og í þeirri ferð verður sú nýjung að rúta ekur frá tjaldstæðinu á ballið okkar fyrir aðeins kr. 500 á mann fram og til baka. Þar er einnig búið að ráða góða hljómsveit. Við viljum gera þessa ferð vel úr garði  með von um að þetta verði árlegur hittingur þessa tveggja félaga héðan í frá.

Það verður nýjung í félagatali. Ég gerði könnun um daginn. Ég bað ykkur og aðra vini mína að nefna mér góðan veitingastað sem kæmi upp í hugann þegar ég óskaði eftir góðri þjónustu, góðu verði og góðu hráefni  eða stað með sérstöðu. Mjög margir tóku þátt. Ég tók saman veitingastaðina sem komu best út alls um 50 staði um land allt og hafði samband við þá . Ég bauð þeim að vera með línu á sér blaðsíðu og fékk mjög góðar undirtektir sem vonandi skila sér í auknum auglýsinga tekjum fyrir okkur. 

Síðunni verður skipt niður í landsfjórðunga  nafn staða, heimilisföng og símanúmer og þessu raðað í stafrófsröð. Fyrirsögnin verður eitthvað á þessa leið: Gæða matsölustaðir, staðir með sérstöðu, gott hráefni, gott verð og félagar okkar mæla með. Þessi síða er hugsuð fyrir þá sem langar í eitthvað annað en sveittan skyndibita á ferðalögum sínum, Fólk getur einfaldlega flett upp á þessari síðu og mögulega fundið stað við sitt hæfi. Þessi síða gæti komið sér vel bæði fyrir okkur og eins þessa staði sem vilja gleymast því við drögumst að misjöfnum vegasjoppum að gömlum vana. Endilega skoðið þetta í félagatalinu og ekki gleyma að kynna ykkur sem húsbílafélaga ef þið kjósið að heimsækja þessa staði. Allt eru þetta spennandi og ódýrir matsölustaðir að ykkar mati, með góða þjónustu og góðan mat. Um að gera að hringja og kanna hvað þeir hafa upp á bjóða. 

Ferðir félagsins í ár verða 8 því það bætist við ferðin með Flökkurum. Dagsetningar eru komnar á heimasíðu félagsins husbill.is svo endilega takið frá tíma til að vera með okkur á ferðalagi í sumar. 

Ég hef þetta ekki lengra að sinni kæru félagar. Við hlökkum mikið til að sjá ykkur öll og vonum að þið komið vel undan vetri að vanda. Allar góðar vættir vaki yfir okkur öllum í umferðinni. 

Fyrir hönd stjórnar og nefnda. 

Bestu kveðjur

Elín Fanndal formaður

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *