Fréttabréf apríl 2019

Gleðilega vordaga kæru félagar og vinir.

 

Vorið: Það er sannarlega að lifna yfir náttúrunni allt í kringum okkur og þá lifnum við líka í sálu og sinni. Það er fátt skemmtilegra en að ferðast um landið sitt og nú lofa veðurfræðingar okkur góðu sumri…..finnst nú reyndar eins og ég hafi heyrt þá áður segja eitt, en svo gerist eitthvað allt annað. En það er bara fylgifiskur þess að búa á Íslandi, þú veist aldrei hvað veðrið býður þér uppá hverju sinni, það að vera veðurfræðingur er örugglega það vanþakklátasta starf sem fyrirfinnst hérlendis.

 

Þetta reddast: En það er samt eins og sálin lifni alltaf við á vorin eftir dimman vetur og við fyllumst bjartsýni og ólgandi gleði yfir komandi tíð. Veðurfræðingar eru þar engin undantekning, Íslendingar eru einfaldlega þekktir fyrir óbilandi trú á að hlutirnir reddist bara á einn eða annan hátt. Sú trú hefur fylgt okkur frá upphafi og haldið okkur á lífi í moldarkofum, bjartsýni og dugnaður hefur fleytt okkur upp úr örbirgð fortíðar yfir í velsæld nútímans og hugsið ykkur bara hvað það er í raun stutt síðan við drógum fram lífið í torfhúsum. Ég efast ekki um að mörg ykkar munið eftir þeim á einhvern hátt, ég ólst t.d. upp við það að á Skagaströnd voru torfhús sem voru mannabústaðir. En nú er ég farin um víðan völl.

 

Ferðafundur í seinna falli: Ferðafundur fram undan og mikil spenna í gangi hjá stjórn og nefndum að fá að kynna fyrir ykkur ferðir sumarsins og afhenda splunkunýtt og glæsilegt félagatal, það verða einnig kynntar nýjungar sem við erum sannfærð um að falli í góðan jarðveg hjá ykkur. Heitt á könnunni, kleinur og að sjálfsögðu páskaegg laugardaginn fyrir páskadag. Enn ekki hvað!

Ég var búin að útskýra á Fésbókinni hvað gerðist varðandi dagsetningu fundarins. Okkur þykir mjög leitt að hafa ekki fengið annan dag. Við fórum á stúfana snemma full af áðurnefndri bjartsýni en fundum fljótt að þetta myndi ekki enda eins og við kusum. Niðurstaðan varð svo þessi, Fólkvangur á Kjalarnesi laugardaginn 20 apríl kl. 14:00. Við erum ykkur afar þakklát fyrir skilninginn og höfum lært af reynslunni. Ég hef þegar sent húsverði Fólkvangs tölvupóst með fyrirspurn um hvernig staðan sé hjá henni á næsta ári því við viljum festa okkur húsið strax til að lenda ekki í ógöngum aftur.

Svo er spurning hvort við skellum á skoðanakönnun á Fésbókinni varðandi það hvort félagar séu á því að hafa ferðafundinn á virku kvöldi frekar en um helgi. Mér finnst hugmyndin áhugaverð. Gætum rætt þann möguleika á fundinum næsta laugardag undir önnur mál og þá vonast ég til að vera einnig komin með dagsetningar næsta árs sem hægt væri að velja úr, en húsvörður hefur ekki svarað mér enn sem komið er.

 

Virkir morgnar: Ég hafði samband við Rás tvö og bað um að fá að koma í „Virka morgna“ og kynna okkar góða félag og kosti þess að vera með okkur. Ég fékk góðar undirtektir hjá Huldu Geirsdóttur í mars og á eftir að tala við hana aftur, hún bað mig að hafa samband aftur í maí. Er það von mín ef að verður að þetta kveiki áhuga hjá einhverjum sem hlusta og við náum að fjölga félögum og fáum einnig mögulega yngra fólk um borð í skútuna með okkur. Talandi um skútu, félagið okkar er á glimrandi siglingu þegar tekið er mið af versnandi ástandi í þjóðfélaginu. Við getum hrósað happi yfir góðu gengi okkar og það er að mínu mati fyrst og fremst að þakka fórnfúsu starfi þeirra sem eru í stjórn og nefndum sem og ykkur kæru félagar sem nýtið ykkur ferðir og/eða afslætti þá sem félagið býður upp á. En allt gengi er fallvalt og við verðum að vera vakandi yfir því.

 

Velkomin í félagið okkar: Tökum öll sem eitt fagnandi á móti nýjum félögum og komum ávallt fram við alla eins og við viljum að komið sé fram við okkur, þetta er ekki flókið kæru vinir, öllum ætti að líða vel á ferðalagi með okkur, handtak, bros og hlýtt viðmót geta dimmu í dagsljós breytt. 

Ég hef þetta ekki lengra að sinni, við hlökkumr til að sjá ykkur sem  flest á fundinum um næstu helgi en höfum fullan skilning á að þið séuð mögulega á ferðalagi. Við sendum félagatalið til þeirra sem ekki mæta og sjáum þau vonandi bara strax í fyrstu ferð félagsins. 
Allar góðar vættir vaki yfir okkur öllum í umferðinni.

 

Innheimta árgjalds: Innheimta hefur gengið vonum framar og við fögnum því. að einungis um 50 félagar eiga eftir að greiða árgjaldið þegar þetta er ritað. Ef þú ert einn af þeim hvet ég þig til að bæta úr því hið fyrsta. 

 

Banki: 552-26-6812 Kt: 681290-1099   Muna eftir að skrá félagsnúmerið þegar greitt er. 

 

Facebókin: Ég vil minna á Facebook síðu félagsins sem heitir „Félag húsbílaeigenda“ Þessi síða er lokaður hópur og er eingöngu ætluð félögum í Félagi Húsbílaeigenda. Til að gerast meðlimur hópsins verður að senda skilaboð á stjórnanda ásamt því að gefa upp félagsnúmeri viðkomandi, það flýtir fyrir samþykki. Þegar félagar hætta í félaginu þá vinsamlegast skrái þeir sig úr þessum hóp.

 https://www.husbill.is/  

Allar góðar vættir vaki yfir okkur öllum í umferðinni.

Fyrir hönd stjórnar og nefnda 

 

Bestu kveðjur 
Elín Fanndal formaður

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *