Frá formanni

Góðan dag kæru félagar. 

Vel var mætt til vina fundar:

Þá er ferðafundur afstaðin og öll sem þangað mættu orðin vel upplýst um ferðaplön félagsins. Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til fundarins er þakklæti. Þakklæti fyrir frábæra mætingu og jákvætt viðmót allra sem mættu. Okkur í stjórn og nefndum var full ljóst að tímasetningin gæti orkað tvímælis. Það er ekki amalegt veganesti fyrir nýjan formann, stjórn og nefndir að hafa fundið þá hlýju og  meðbyr sem okkur var  sýndur þar. Nú á fundinum var farið vítt og breytt þó hann sé fyrst og fremst ferðafundur félagsins.

Velvild og gjöf:

Hjónin á Grímsævintýri mættu á fundinn með glaðning, rúðuvökva alls fimm, tíu ltr. brúsa. Skemmtinefnd tók þá ákvörðun að deila þeim út strax í leik sem fór þannig fram að servíetta var fest undir fimm stóla og svo fólki sagt að þreifa undir stólinn í lok fundar. Þetta vakti mikla lukku hjá fólki og við kunnum þeim hjónum bestu þakkir fyrir þessa flottu gjöf til félagsins.

Fórnfýsi og ómæld velvild:

Annar félagi, hann Tryggvi okkar á Félaganum kynnti fyrir formanni alveg magnaða gjöf til okkar. Hann hefur eytt löngum tíma í vetur við að hljóðsetja lög sem hægt verður að nota sem undirspil þegar við syngjum saman í ferðum okkar. Það verður bylting að fá þétta og flotta “hljómsveit” undir söng á  söngkvöldum okkar. Alls um hundrað og þrjátíu vinsæl lög. Tryggvi hefur alla tíð unnið fórnfúst starf fyrir okkar félag og fyrir það á hann ómældan heiður  skilið. Við hvetjum þó hljóðfæraleikara eindregið til að koma með hljóðfæri sín og spila með, það er aldrei of mikið af góðu undirspili.

Til að fyrirbyggja allan misskilning er þessi vinna Tryggva eingöngu í hljóðkerfi félagsins, ekki á diskum.

Á ferðalagi:

Ferðir okkar eru sem sagt mjög spennandi í ár með skemmtilegum áningarstöðum, ekki síst stóra ferðin sem að þessu sinni spannar norðurland eystra. Svo verður ekki leiðinlegt að hitta Flakkara á Hvammstanga, það er hugur í þeim að hitta okkur og við erum alveg jafn spennt. Þar höfum við alvöru ball með flottri hljómsveit í félagsheimilinu og fáum sætaferðir til og frá tjaldstæði á aðeins kr. 500 á mann báðar leiðir. Eins og flestum er kunnugt er heldur langt að ganga þessa leið, sérstaklega þegar maður hefur dansað af krafti undir góðri tónlist. Skemmtinefndin kynnti líka nýjungar, furðufataballið verður t.d. með nýju sniði, nú er áformað að hafa sveitaþema sem sagt keppni um hver verður mest sveitó eða þjóðlegastur af félögum, það verða verðlaun í boði eins og vanalega. Bara gaman!

Það verður enn meira gert til að höfða til barna nú en áður, enda er það von okkar að þeim fjölgi á ný í ferðum okkar.

Hvað ungur nemur gamall temur:

Ég vil eindregið hvetja félaga til að draga með sér yngri kynslóðina hvenær sem færi gefast. Blessuð börnin lífga alltaf upp á okkar ferðir og eru okkur til gleði og yndisauka.

Við þurfum einnig að huga betur að því að fá yngra fólk til að ganga í félagið og erum nú með markvisst átak í gangi sem vonandi leiðir til þess. Hvítasunnuferðin er t.d. auglýst sem sérstök fjölskylduferð og þar verður dagskrá sem höfðar til barna sem fullorðinna. Þar má gjarnan bjóða fjölskyldu og/eða vinum, með tjöld, tjaldvagna, fellihýsi eða hjólhýsi. Allir eru velkomnir en greiða að sjálfsögðu það gjald sem sett verður upp til að fjármagna tjaldstæðið, húsið og annað sem þarf.

Gamli góði ungmennafélags andinn:

Þá vil ég hvetja þig félagi góður til að vera vakandi yfir ákjósanlegum “fórnarlömbum” á ferðalagi þínu í sumar. Það er nóg að setja miða undir rúðuþurrku ef ekki vinnst tími til að kynna sig. Þar þarf ekki að standa flókin texti. Til dæmis: Er félagið mitt ekki eitthvað fyrir þig? Undir þessari fyrirsögn væru svo tilgreindir kostir þess að vera í Félagi húsbílaeigenda. Afslættir og ferðaplön, skemmtilegur félagsskapur, símanúmer, netfang og upplýsingar um link á heimasíðuna husbill.is Það má gjarnan útbúa blöð heima og hafa þau handbær í bílnum.

Ég hef bjargfasta trú á að allt svona geti virkað og hið fornkveðna sannist að margar hendur vinni létt verk. Áfram Félag húsbílaeigenda!

Athugið:

Ég vil árétta að þau sem ekki mættu á ferðafundinn fá félagatalið sent í pósti eða með vinum strax eftir helgi. Fyrir alla muni athugið að félags skírteinin ykkar eru líka með, gætið þess vandlega að þau verði ekki eftir í umslaginu.

Að lokum:

Kæru félagar og vinir, gleymum ekki að hlýja og gott viðmót getur dimmu í dagsljós breytt. Ef þú smælar framan í heiminn og þá smælar heimurinn framan í þig söng meistari Megas. Mikill sannleikur sem felst í þessum orðum, dagurinn verður bara allur annar og betri.

Megi allar góðar vættir vaka yfir okkur í umferðinni.

Bestu kveðjur

Elín Fanndal

Formaður.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *