Maí fréttabréf

Komið þið sæl kæru félagar og vinir.

Þá er komið að maí fréttabréfi undirritaðrar.

Fyrsta ferðin:

Við höfum nú fyrstu ferðina að baki og er sannarlega óhætt að segja að hún hafi heppnast vel.  Yfir 70 bílar mættu í Vogana og allir meira en tilbúnir í sína fyrstu útilegu. Það ríkti gleði og almenn ánægja með að vera að hittast í fyrsta sinn þetta árið. Þessi frábæra mæting gladdi stjórn og nefndir mikið. Vinna vetrarins hefur verið talsverð og hún skilar sér enn betur með samstöðu og jákvæðni félaga. Ef ég fer lauslega yfir helgina þá stendur skoðunarferðin upp úr hjá mér, þátttaka framar björtustu vonum og ég held að ég geti fullyrt að engin hafi verið svikin af þeirri ferð.

Saga, snaps og skonsur:

 Leiðsögumaðurinn okkar hann Birgir Þórarinsson fór á kostum við að lýsa staðarháttum og sögu  Vatnsleysustrandar, og höfðinglegar móttökur á Minni Knarrastöðum, það var sérstök upplifun að fá snaps og sögustund í fornu fjósi upp gerðu sem hrár samkomusalur. Við kunnum honum bestu þakkir fyrir og allt mun þetta lifa í minningunni. Það væri gaman að gera eitthvað þessu líkt aftur að ári og ég vil þakka ferðanefnd alveg sérstaklega fyrir að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Þegar við komum til baka var boðið upp á vöfflur með rjóma, skonsur og kaffi. Ekki amalegt að enda ferðalagið á svo gómsætri hressingu. 

Húsbílafélagar hugsa í lausnum:

Skemmtinefndin bauð upp á bingó og útileiki en nú kom babb í bátinn, Kári gamli blés ísköldu svo bingó úti við var óhugsandi. Við ætlum okkur að vera félagskapur sem hugsar í lausnum og stóðum þarna undir því. Við leigðum lítinn sal við tjaldstæðið á laugardagskvöldinu, breyttum uppröðun á dagskrá þannig að útileikir voru seinnipartinn og bingó haldið kl:20:00 og í beinu framhaldi tónlist að eigin vali til kl. 23:00 Lárus á 610 kom með sínar græjur og söng nokkur lög við góðar undirtektir, við þökkum honum kærlega fyrir það. Það er alltaf gott þegar færi gefst að félagar nýti sér aðstæður til að skemmta sér og öðrum. Svo var settur af stað óskalisti gesta og þeirra óskalög spiluð, það lukkaðist einnig ljómandi vel. Þegar helgin er tekin saman, kemur fyrst upp í hugann, góð framkvæmd og skipulagning, jákvæðni og lausnamiðuð hugsun allra. Þessi ferð gefur sannarlega tóninn fyrir góðu sumri.

Eyrarbakki:

Næsta ferð er svo á Eyrarbakka um aðra helgi, það verður sko alvöru útilega, ekkert hús í boði þar en flotta skemmtinefndin okkar verður með dagskrá engu að síður. Blái naglinn okkar hjóna er í yfirhalningu og verður ekki tilbúin þessa helgi svo við fjölskyldan verðum að leita annara lausna til að hitta ykkur þar. Okkur hlakkar sannarlega til að sjá sem flesta þar einnig.

Hvítasunnuferðin:

Eftir Eyrabakka ferðina er Hvítasunnuferðin og ég vil biðla til ykkar allra að vera dugleg að kynna þá ferð fyrir fólki í kringum ykkur., Hvetjið sem flest einhverja til að koma með okkur, segið frá þéttri dagskrá sem á að höfða til allra, ævintýri fyrir börn, fjársjóðsleikir og Einar Mikael töframaður svo eitthvað sé nefnt. Að sjálfsögðu ball fyrir fullorðna fólkið líka. Hvítasunnu veislukaffið okkar verður glæsilegt að vanda. Við hugsum þessa ferð sem kynningu útávið á okkar góða félag og þess vegna er svo mikilvægt að við fáum sem flest með okkur gesti. Félagið leggur töluvert undir og það væri frábært ef ferðin stæði undir sér, góð kynning er svo mikilvæg á þessum óróa tímum í ferðaþjónustu, hún aflar okkur, fleiri félaga, enn betri afslátta á tjaldstæðum og fleiri auglýsingar hjá fyrirtækjum. Munum að gestir okkar þessa helgi þurfa ekki að eiga húsbíla og allt er innifalið í gjaldi helgarinnar.

Mikilvæg skoðanakönnun:

 Við munum setja inn skoðanakönnun á áætluðum fjölda í hvítasunnuferð til  að sjá betur heildarstöðuna og við treystum á þátttöku ykkar þar. Það auðveldar alla vinnu og snar minnkar líkur á tapi félagsins þessa helgi ef við vitum sirka fjöldann sem mætir.

Ábending:

 Ég vil benda félögum á að senda póst á  husbill@husbill.is  og tilkynna þar allar breytingar. Við fengum t.d. 5 félagatöl send til baka vegna þess að heimilisfang fannst ekki eða viðkomandi er fluttur. Svo ef þið saknið enn félagatals og afsláttarskírteina þá endilega sendið okkur póst.

Þakkir:

 Að lokum langar mig að þakka af einlægni öllu samstarfsfólki mínu fyrir þolinmæði og hlýhug í byrjun þessarar vegferðar sem formaður, ekki síður honum Daða mínum án hans hefði ég ekki boðið mig fram. Við höfum unnið að því að einfalda vinnu og gera hana enn skilvirkari og höfum fulla trú á að það komi til með virka vel næstu árin. Það  hafa verið brekkur upp og niður enda er þetta ansi viðamikið og oft á tíðum erfitt fyrir nýliða hafa yfirsýn. Við vorum of bráðlát varðandi sumt og eigum pottþétt eftir að gera fleiri mistök, en máltækið segir: Sá lærir sem lifir! Við erum bjartsýn á framhaldið og með ykkar stuðningi gerum við betur næsta vetur.  

Allar góðar vættir vaki yfir okkur í umferðinni.

Bestu kveðjur.

Elín Fanndal 

Formaður

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *