Pistill frá formanni í lok hvítasunnu

Kæru félagar og vinir. 

Mig skortir eiginlega orð til að lýsa gleði minni og þakklæti eftir þessa hvítasunnuferð okkar. Hvorki fleiri né færri en 257 manns og 32 börn samankomin i Þykkvabæ, takk fyrir takk. 

Allt gekk vel fyrir sig og öll dagskrá til fyrirmyndar. Ég er sérstaklega glöð yfir öllum þessum börnum, þessir gleðigjafar lífga sannarlega upp á ferðir okkar og ég vona að börn muni halda áfram að heiðra okkur með nærveru sinni. Við munum gera þeim hátt undir höfði áfram og sérstaklega í þessari ferð.

Veislukaffið var ljómandi vel lukkað og setur alltaf hátíðarblæ á þessa ferð.

Það voru blendnar tilfinningar meðal félaga varðandi hljómsveitina sem stjórn og nefndir taka fullt mark á og við munum gera betur á næsta ári. Finnum gott band sem keyrir upp dúndrandi stemningu og höfðar til sem flestra. Þessi ferð er það vinsæl að við eigum að geta borgað meira og fá í staðinn glimrandi hljómsveit. Það var bara ákveðin hrollur í okkur núna eftir síðustu hvítasunnu ferð þar sem Kári gamli lék okkur grátt og fældi fólk eðlilega frá því að koma. En við eigum ekki að hugsa þannig, það sem gerist í dag þarf alls ekki að gerast á morgun líka.

Enn á ný þakka ég öllu því frábæra fólki sem stóð að þessu og einnig þeim félögum sem lögðu hönd á plóginn með okkur, bæði með aðstoð og afþreyingu. Það er öllu félagsstarfi ómetanlegt að hafa jákvætt og framtaksamt fólk innan sinna raða. Við skiljum möguleg vandamál og ergelsi eftir heima og njótum frísins saman.

Hann Ásgeir úr ferðanefnd nefndi við mig hversu frábær og eiginlega einstakur honum finnist þessi hópur vera og hafa verið alla tíð. Ég er honum svo innilega sammála, við erum lítið samfélag á hjólum. Samfélag sem samanstendur af fólki sem hefur unun af því að ferðast og ekki síður hittast og njóta saman. Við hlökkum alltaf til ferðanna og gleðin skín af hverju andliti þegar við hittumst.

Það er líka einstakt gleðiefni fyrir okkur að yfir 20 nýir félagar hafa bæst við okkar litla samfélag. Við bjóðum þau öll hjartanlega velkomin, tökum öll hlýlega á móti þeim og hvetjum þau einnig til að hafa sig í frammi.

Næst er það Hvammstangi helgina 21 til 23 júní. Undirrituð hlakkar ómælt til að fara þangað í hennar heimasveit. Sú ferð verður kynnt frekar þegar nær dregur en mig langar til að biðja allt handverksfólk að senda mér póst á husbill@husbill.is ef áhugi er fyrir því að vera með markað í félagsheimili þorpsins. Ég myndi þá auglýsa það í Sjónaukanum sem er fréttasnepill bæjarfélagsins.

En það er frekar langt frá tjaldstæðinu gæti einhver hugsað. Rétt er það en við höfum þegar bílstjóra um kvöldið og það er ekki ólíklegt að hann væri til í að skutlast líka um daginn. Ég kanna það ef ég sé að grundvöllur er fyrir því.

Bestu þakkir aftur öll fyrir frábæra helgi.

Kær kveðja

Elín Fanndal formaður

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *