Hvammstangi helgarferð með Flökkurum.

Góðan dag gott fólk. Þá líður að næstu ferð okkar til móts við Flakkara á Hvammstanga svo ég skerpi hér aðeins á helstu atriðum.

Það reyndist ekki næg þátttaka fyrir markað í félagsheimilinu á laugardeginum, kannski bara næst. Auðvitað geta þeir sem vilja haft með sér varning og selt á tjaldstæðinu.

Á föstudagskvöldið hvetjum við alla til að koma saman og syngja með okkur, við hittumst við þjónustumiðstöðina kl. 21:00. Við yrðum ógurlega þakklát ef við fengjum einnig hljóðfæra leikara til að spila undir með okkur. Við erum svo lánsöm að hafa frábæra gítar og harmonikkuspilara í okkar röðum, svo kæru vinir ef þið mætið endilega komið með hljóðfærin ykkar með. Þið líka Flakkarar! 

Skemmtinefndin verður með bjórleik (allir koma með einn góðan bjór í pott sem verður svo dregin út) og Pálínuboð (allir koma með eitthvað gómsætt á sameiginlegt borð) Þessir viðburðir verða sameinaðir kl 15:00 á laugardeginum.

Á laugardaginn langar mig að vera með smá sögustund og spjall kl. 17:00 þar sem við erum nú á þeim slóðum sem eitt frægasta sakamál sögunnar átti sér stað, mál Agnesar, Friðriks og Sigríðar sem leiddi til síðustu aftöku á Íslandi. Við tökum fyrir undanfarann, aftökuna, aftur gönguna, bókina Náðarstund og væntanlega kvikmynd.

ATH! Það verður dregið í bjórleiknum í lok spjalls eða sirka 17:30. Ég á eftir að finna hentugan stað og kynni hann á föstudagskvöldinu.

Á laugardagskvöldið er flöskuball frá kl. 22:00 til 02:00 í félagsheimili Hvammstanga. Stulli og Danni frá Siglufirði munu sjá um að halda okkur í myljandi stuði eins og þeir erum þekktir fyrir. Guðmundur Haukur mun sjá um að aka okkur, farið kostar kr. 500 á mann fram og til baka. Hafið með ykkur pening, hann er ekki með posa. Aðgangur á ballið er kr. 1000. Þar er heldur engin posi!

Læt þessu lokið að sinni og hlakka ógurlega til að sjá alla um helgina. Ég hvet ykkur til að taka sérstaklega vel á móti Flökkurum sem heiðra okkur með nærveru sinni þessa helgi.
Ég vil þakka formanni þeirra honum Þorvaldur Traustason innilega fyrir góða viðkynningu í þessum sameiginlega undirbúningi og ég vona að þetta sé aðeins byrjunin á samvinnu þessara tveggja flottu félaga.

Hipp, hipp og húrra fyrir okkur  
Sjáumst hress sem flest og ekkert stress.
Bestu kveðjur
Elín Fanndal

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *