Frá formanni í lok Hvammstanga ferðar.

Hjartans þakkir fyrir ógleymanlega ferð kæru vinir og félagar. Það gefur okkur alltaf svo mikið sem vinnum að þessum ferðum að finna jákvæðni, gleði og bara tæra hamingju skína af hverju andliti. Ég hefði bara ekki trúað því hversu gefandi það er að skynja þetta í ferðum okkar og fyrir það er ég þakklát.

Rétt um 100 bílar í allt og maður skynjaði strax hversu mikil ánægja ríkti vegna góðrar þátttöku beggja félaga.

Flakkarar fjölmenntu sem sagt og það var samþykkt á laugardeginum með dynjandi lófaklappi að endurtaka leikinn að ári.

Veðurguðirnir blessuðu okkar með dýrindis blíðu sérstaklega á laugardeginum þegar við héldum sameiginlegt Pálínuboð. Eins og myndin sýnir þá svignuðu borð undan gómsætum kræsingum.

Dansleikurinn var hreint út sagt frábært, gólfið fylltist strax undir fyrstu lögunum og hélst þannig allt ballið. Stulli og Danni eru bara magnaðir. Svo er það þakkarvert hversu margir hjálpuðu til við að stóla upp og niður, það kláraðist eiginlega áður en það byrjaði. Sætaferðir gengu vel og nánast allir sem fóru á ballið nýttu sér þær. 50 manna rúta fór 3 ferðir og það tók aðeins hálftíma að koma öllum sem vildu á ballið.

Nú er það stóra ferðin næst eftir þrjár vikur. Stulli mætir aftur til okkar í Ýdali og nú með stærri hljómsveit. Kvenfélagið sér aftur um matinn á laugardeginum enda eru þær snilldar kokkar. Verð ferðarinnar verður kynnt fljótlega og einnig sett könnun af stað til að fá grófa mynd af væntanlegri mætingu.

Kæru félagar og Flakkarar
Bestu þakkir aftur fyrir frábæra ferð.
Elín Fanndal

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *