Frá formanni í lok stóru ferðar

Kæru félagar.

Þá er stærsta ferð okkar að baki þetta árið. Hún lukkaðist í alla staði vel þegar að félaginu kemur en því miður bilaði t.d einn bíllinn í Ýdölum og einhverjar aðrar bilanir urðu.  Það reddaðist þó allt með góðra vina hjálp. Veðrið var aldrei slæmt og stundum frábært, en hefði vissulega  sumstaðar getað verið betra. En húsbílafélagar láta það ekki á sig fá gleði og samstaða réðu ríkjum allan tímann. Okkur var alstaðar tekið vel og erum hjartanlega velkomin aftur á alla staði sem við gistum á.

Ártún við Grenivík er virkilega flott tjaldstæði og við hjónin erum staðráðin í að gista þar  þegar við förum norður fyrir aftur.  Eins kom Grenivík okkur á óvart, virkilega fallegur og snyrtilegur bær og sundlaugin einstök.

Mánárbakki er líka flott tjaldstæði og gestrisnir staðarhaldarar héldu vel utan um okkur  þar í frábæru veðri. Þar nutu við líka helmings afsláttar á mjög áhugavert safn sem er á staðnum.

Vopnafjörður hefur oft verið meira spennandi og átti rigningin sinn hlut i því að sumir stoppuðu stutt og þeir sem ílengdust hreyfðu sig lítið. En þar komu gestgjafar þar okkur sannarlega á óvart með fínum tónleikum.  Mæðgur mættu með míkrafón og nikku.  Yndis söngur stúlku sem ég því miður man ekki hvað heitir og harmonikkuspil Maríu móður hennar gladdi alla. María hældi okkur í hástert og það gerðu reyndar allir sem tóku á móti okkur.

Það er ómetanlegt fyrir Félag húsbílaeigenda að fólkið okkar kynni sig svona fallega á gististöðum og tjaldstæðum. Takk fyrir það og húrra fyrir ykkur! Eins heyrði ég á nýjum  félögum að þeim  fannst vel tekið á móti þeim í alla staði. Takk líka fyrir það! Helgin i Ýdölum var alveg frábær í alla staði og er óhætt að segja án þess að halla á neinn að staðarhaldarar þar skari fram úr þegar kemur að gestrisni og þjónustu. Kvenfélagið laðaði líka  fram dásamlegan veislumat sem rann ljúflega niður.  Stulli og Daníel heldu svo uppi stuðinu á ballinu.

Ég vil þakka ferðanefnd  og skemmtinefnd fyrir frábært starf í þágu félagsins. Mikið sem við erum lánsöm að hafa svona gott fólk í nefndum okkar.  Skemmtinefndin vann t.d. þrotlaust alla helgina i Ýdölum við enn og aftur takk fyrir það.  Vinaleikurinn árlegi tókst vel og Annalísa skvísa vann í akkorði við að deila pökkum á milli bíla. Það mátti sjá hana með slagsíðu af pakkaburði í grenjandi rigningu og vindi. Hún er alsæl með pening og gjafir frá mörgum félögum. Ég vil þakka ykkur innilega fyrir að taka svona vel utan um litlu skottuna okkar. Hún hefur eignast marga vini og vinkonur í þessum ferðum félagsins og þessar minningar verða henni svo dýrmætar.

Að lokum þá hlakka ég til að sjá ykkur í Brautartungu, þar gildir að vera nógu  furðulegur á ballinu. Furðufata ballið sem sagt í fulli gildi, sveitaþema en allir búningar gjaldgengir.  Mikið verður gaman að sjá hverju þið takið upp á þar.

Megi allar góðar vættir vaka yfir okkur á ferð okkar um landið.

Bestu kveðjur

Elín Fanndal.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *