Kæru félagar og vinir.
Það gustaði sannarlega um okkur í Brautartungu um helgina eins og reyndar alla aðra á suðvestur horninu. En það breytti því ekki að alls 85 bílar mættu á svæðið.81 félagsbíll og 4 gestir. Ferðin og helgin gekk í alla staði vel hvað félagið varðar og ég vil enn á ný þakka öllu því ómetanlega fólki sem lagði hönd á plóginn við að gera helgina ógleymanlega.
Á föstudagskvöldið braut skemmtinefnd upp mynstrið með því að bjóða upp á kántrý tónleika með bræðrunum Þorsteini og Júlíusi Róbertssonum. Maður minn hvað þeir voru flottir, þeir fluttu bæði frumsamin lög eftir Þorstein og svo á breiður. Fyrir þau sem ekki vita er Júlíus betri helmingur Ásgeirs Trausta og því orðin heimsfrægur þess vegna.
Kjötsúpan góða sveik engan frekar en fyrri daginn og kunnum við Galító bestu þakkir fyrir frábæra þjónustu og sanngjarnt verð, nú sem endra nær.
Á laugardeginum kvisaðist það út að vatnið rynni ekki lengur í sturtunum. Ásgeir formaður ferðanefndar hafði þá samband við staðarhaldara og fljótlega eftir það kom í ljós að líklegasta skýringin væri sú að vatnsbólið væri að tæmast. Nú voru góð ráð dýr nærri 170 manns á staðnum og ekkert vatn! En við létum ekki bugast frekar en fyrri daginn, kattaþvottur skyldi þá bara duga fyrir ballið og sem betur fer kom í ljós að það seytlaði vatn í salernin. Enn vil ég hrósa ykkur kæru félagar fyrir æðruleysi og samhug þegar á móti blæs. Engin lét þetta pirra sig heldur þakkaði sennilega sínu sæla að vera með salerni í bílunum.
Svo kom að balli og þá hljóp nú heldur betur galsi í mannskapinn, hljómsveitin Feðgar gátu hreinlega ekki hætt að spila það var svo mikið fjör í húsinu. Þeir byrjuðu korteri fyrr en áætlað var og spiluðu hálftíma lengur líka. Þið eruð öll búin að sjá búningana hér á síðunni, það þarf ekki að hafa mörg orð um það en ég vil þó nefna að metnaðurinn sem lagður er í þá á hverju ári er með eindæmum.
Við Daði komumst hvorug í næstu ferð svo við sjáumst því kæru vinir ekki fyrr en í lokaferð og á árshátíð. Stjórn og nefndir eru þegar byrjuð að plana mögnuð skemmtiatriði og það er búið að ganga frá mjög girnilegum matseðli frá kvenfélaginu. Eins er búið að festa eitt aðkeypt atriði sem örugglega mun falla í góðan jarðveg. Við ætlum að enda þetta stórkostlega sumar með stæl svo takið endilega frá helgina 20 til 22 september.
Að lokum vil ég geta þess að aðalfundur hefur verið ákveðin og verður hann haldin 2. nóvember í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Tímasetning auglýst síðar.
Húrra fyrir ykkur!
Bestu kveðjur