Aðalfundur Félags húsbílaeigenda Laugardaginn 2. nóvember 2019 Fjölbrautarskólinn Akranesi

Fjölgun og fækkun:

Góðir félagar, við höfum vaxið og það sér ekki enn fyrir endann á fjölgun félaga á þessu ári. Einhver fækkun líka eða um 20 félagsnúmer. Ég ákvað að hringja í þá félaga sem voru að hætta þegar ég tók við, bara til að forvitnast um ástæður og þakka þeim fyrir veruna í félaginu. Það gladdi mig að heyra að ástæður úrsagna þeirra voru að búið að selja húsbílinn og  að fólk hætti sökum aldurs. 

Öll höfðu margt jákvætt að segja um veru sína í félaginu og ég skynjaði  eftirsjá og söknuð hjá þeim öllum.  

Þetta segir allt um félagskapinn og gildi okkar ágæta félags fyrir fólk.

Ég lýsti því yfir í framboðsræðu minni að takmark okkar á þessu kjörtímabili yrði að fjölga félögum og fá inn fleira yngra fólk. 

Ég hoppaði hæð mína af gleði ef fæðingarár nýrra félaga byrjaði á 1970 og tala nú ekki um 1980. Með fullri virðingu fyrir okkur sem erum fædd fyrr. 

Nú þegar þetta er talað hafa hvorki fleiri né færri en 25 félagsnúmer bæst í okkar góða hóp síðasta ár. Okkar einstaka og góða samfélag! 

Yfirlýst markmið okkar hafa því þegar náðst og yfir því megum við öll vera stolt. Nýjum Félögum hefur fjölgað töluvert og við náðum einnig til yngra fólksins. Með yngra fólki koma vonandi fleiri börn í ferðirnar og það er einnig fagnaðrefni. En betur má ef duga skal og við munum vinna áfram að því að nýjum félögum fjölgi þar sem úrsagnir verða áfram hluti af félagskapnum. 

Ég minni að þessu tilefni á blöðin til að hafa í húsbílnum og úthluta til vænlegra “fórnalamba” sem ekki eru í félaginu. Það munu liggja eintök frammi á ferðafundinum í vor. Alveg kjörið að hafa tvö, þrú eintök í húsbílnum og draga fram þegar á þarf að halda. Það sýndi sig í sumar að það skilaði sér. 

Taka vel á móti nýjum félugum.

Við þurfum að halda vel utan um nýja félaga. Passa að þeim finnst þau ævinlega velkomin með okkur og séu hluti af þessum félagskap. Ég talaði um okkur sem samfélag hér áðan, það erum við svo sannarlega, við erum færanlegt samfélag þar sem fólk fagnar endurfundum, burtséð frá því hvort kunningskapur sé mikill, lítill eða  jafnvel engin þess utan. 

Það er einmitt þetta sem gerir Félag húsbílaeigenda að svo einstöku félagi.  

Lítið þorp á hjólum:

Við höfum frá byrjun verið lítið og afar dýrmætt þorp á hjólum!

Félag húsbílaeigenda hefur náð að halda utan um og varðveita þessa færanlegu og friðsælu þorps stemningu alveg frá stofnun. Það í sjálfu sér er afrek og eiginlega rannsóknarefni nú á tímum óstöðvandi erils og stanslaus áreitis sem sjaldnast er jákvætt heldur miklu fremur neikvætt og slítandi. 

Og erum við ekki einmitt þess vegna svo öflugt og stöndugt félag? Ég tel svo vera ef við hugsum málið til enda. Vel skipulagðar ferðir, friðsældin, gleðin, samveran, söngurinn og undirspilið, og að sjálfsögðu okkar magnaða og fjölbreytta náttúra.  

Gamli ungmennafélagsandinn.

Í félaginu ríkir enn gamli ungmennafélags andinn. Þar ríkir samheldni, góðsemi og hjálpsemi. 

Ef bíll bilar, þá sést varla í þann bíl fyrir óþreyjufullum hjálparhellum sem annaðhvort eru hálfar ofan í húddinu eða í versta falli að sparka í dekkin. Það getur ekki verið annað en gott fyrir sálina að tilheyra þessu litla þorpi. 

Þú ert sjaldnast með sama útsýnið, eflir vináttu og skapar ævinlega góðar minningar með öðrum þorpsbúum.  

Hjartastuðtæki:

Langþráður draumur margra í félaginu rættist þegar keypt var hjartastuðtæki í sumar. Tækið er mjög einfalt í notkun og leiðir þig áfram, skref fyrir skref ef svo illa vildi til að þyrftir að nota það. Nú mun þetta tæki fylgja með í ferðum okkar og við munum tilkynna hvar það er hverju sinni, en vonandi þurfum við aldrei að nota það. 

Ég ætla nú að renna lauslega yfir ferðir okkar á síðasta tímabili. 

Fyrsta ferð 10 til 12 maí, Vogar á Vatnsleysuströnd. Hávaðarok og hitinn um 2 til 4 gráður en það kom ekki í veg fyrir að 75 bílar mættu. Það var magnað að skynja gleðina yfir því að hittast eftir langa bið. Ég veit ekki með ykkur en leiðsögnin sem við fengum hjá honum Birgi Þórarinsyni stendur uppúr hjá mér. 

Önnur ferð 24 til 26 maí Eyrarbakki, fín mæting líka og allir skemmtu sér vel. 

Hvítasunnuferð 7 til 10 júní í Þykkvabæinn. Alveg mögnuð ferð sem er að skapa sér álíka sess og lokaferðin. Frábær mæting og mikið lagt upp úr að gera vel við félaga og gesti þeirra. Töframaður kom og kætti börn og fullorðna og veislukaffið sló í gegn eins og venjulega. Við skynjuðum þó óánægju með hljómsveitina og tökum undir það stjórn og nefndir. Við gerum betur í næstu hvítasunnuferð og finnum flotta sveit sem kann á okkur lagið. Mikið ánægjuefni hversu vel var mætt og margir gestir líka. 

Fjórða ferð, við hittum Flakkara 21 til 23 júní á Hvammstanga. Þessari ferð var ég persónulega mjög spennt fyrir. Það að hitta loks Flakkara og eyða með þeim helgi á Hvammstanga er eitthvað sem við mörg höfum beðið eftir og nú varð af því. Er skemmst frá því að segja að ferðin gleymist seint þeim sem mættu, frábært veður og almenn gleði yfir að hittast. Mikill söngur og undirspil í dásamlegu veðri. 

Ég var með sögustund um atburði þá er gerðust í næsta nágrenni og leiddu til síðustu aftöku á Íslandi og mæltist það vel fyrir. Dansleikur með Stulla Danna í félagsheimili staðarins og þar tæmdist aldrei dansgólfið á meðan á því stóð. Alveg mögnuð ferð sem ég vona að verði endirtekin sem fyrst. 

Stóra ferð hófst 12 júlí og endaði þann 21.júlí í Ídölum. Ferðast var um Norðuland Eystra. Flín mæting hjá félögum. Hefðbundin og vel heppnuð ferð í alla staði. Hér vil ég staldra við og þakka skemmtinefnd sérstaklega fyrir þeirra vinnu, þau stóðu vaktina meira og minna alla ferðina eins og ávalt í ferðum.  

Sjötta ferð, furðufata og kjötsúpu ferð í Brautatungu í Lundareykjadal 16. til 18. ágúst. Flott mæting. Það er alltaf svo gaman að sjá hversu virkir félagar eru þegar kemur að því að klæða sig í furðuföt, rífandi stemning og mikið fjör. Kjötsúpan frá Galíto gerir lukku í þessari ferð á hverju ári. 

Sjöunda ferð 6. til 8. september í Sangerði. Þokkaleg mæting og spurning hvort ekki þurfi að endurskoða hana að ári. Það er svo mikið um að vera þessa helgi. Ferðanefnd þyrfti kannski að skoða það að mínu mati. 

Lokaferð og árshátíð 20. til 22. september að Laugalandi í Holtum. Mjög vel heppnuð ferð, við vorum einstaklega heppin með veður og öll skipulagning til fyrirmyndar. Sérstaklega vil ég þakka skemmtinefnd fyrir þeirra framlag, happadrættið var einstaklega veglegt og það sýnir okkur að það er vel hægt að vera með glæsilega vinninga, en það krefst vinnu og forsjálni. Frábært hjá ykkur. 

Kæru vinir, 

Okkur í stjórn og nefndum hlakkar til næsta árs með ykkur öllum. Við munum öll sem eitt halda áfram að vinna ötult að farsælu félagi eins og forverar okkar. Við þökkum því fólki sem fer frá borði núna fyrir frábært starf í þágu félagsins. 

Endurskoðendur hverfa báðar frá borði í ár. Þær Erla Skarphéðinsdóttir og Guðbjörg Bjarnadóttir. Erla hefur starfað sleitulaust sem endurkoðandi í 17 ár fyrir félagið. Það er ómetanlegt og sannarlega ekki gefið að hafa svo trúan og traustan starfsmann í félagi sem rekið er með sjálfboðavinnu. 

Þá vil ég líka færa öllum hljóðfæraleikurum bestu þakkir fyrir þeirra framlag í ferðum sumarsins.  

Þeir félagar sem láta af störfum verða svo heiðraðir hér sérstaklega á eftir. 

Ég vil hvetja ykkur til að vera meðvituð um félagið okkar, líka á veturnar. Í félagatalinu okkar góða er t.d að finna veitingastaði sem þið hafið mælt með og þessir staðir borguðu allir fyrir að vera í ritinu. Það er lykilatriði ef þið heimsækið þessa staði að skila kveðju sem félagar í Félagi húsbílaeigenda. Við munum setja af stað aðra könnun í fjésbókar hópnum og hringja svo í fleiri staði til að bjóða þeim að vera með líka.  

Við  erum svo lánsöm að alltaf finnst fólk innan okkar raða, sem er tilbúið að leggja á sig vinnu við að gera þetta svo mögnuðu félagi sem það er. Það eru komin framboð bæði í skemmtinefnd og ferðanefnd. Að taka þátt í nefndarstörfum félagsins er besta leiðin til að kynnast sem flestum í ferðum félagsins.

Kæru meðstjórnendur, ferða og skemmtinefnda fólk ég veit að ég tala fyrir hönd félaga þegar ég þakka af alhug fyrir ykkar framlag til félagsins. Án ykkar væri félagið ekki svo öflugt sem það er. 

Kæru félagsmenn, ekkert er sterkara en veikasti hlekkurinn, þið eruð undirstöður Félags húsbílaeigenda. Breiðið út boðskapinn og hvetjið vini og vandamenn til að kynna sér félagið. Verið dugleg að segja frá kostum þess að vera í félaginu. Endilega bendið líka fólki á að það þarf ekki að vera virkt í ferðum til að njóta afslátta sem félagar í Félagi Húsbílaeigenda.  

Ég þakka ykkur innilega fyrir liðið ár og hlakka til þess næsta. 

Elín Fanndal formaður.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *