Frá formanni

Kæru félagar. 

Í gær laugardag hittust í Þorlákshöfn stjórn og nefndir félagsins. Unnið er að krafti við öflun auglýsinga í félagatalið okkar. Ef þið kæru vinir vitið um hugsanlega auglýsendur, hikið þá ekki við að láta okkur vita. Þessi róður þyngist ef eitthvað er og öll aðstoð er sannarlega vel þegin. Það gleður okkur að einhverjir hafa nú þegar brugðist við bón okkar og það er að skila okkur nýjum auglýsendum. Hafið ómælda þökk fyrir kæru félagar sem hafa hjálpað. Formaður náði betri samningi við prentsmiðju sem er einnig gleðiefni.

En aftur að fundinum í gær. Skemmtinefnd sagði frá hugmyndum og uppákomum sem bryddað verður á í ferðum félagins í ár.. Ferðanefnd upplýsti um ferðatilhögun sumarsins. Það er mikill hugur í stjórnar og nefndarfólki og tilhlökkun til komandi ferðatímabils. Við vonum að þið kæru félagar deilið þeirri spennu með okkur.

Ákveðið var að boða til auka aðalfundar þann 18 apríl. Fundurinn verður haldinn í Fólkvangi, eitt mál á dagskrá, kosningar! Ástæða þessa er að stjórn og formaður gerðu mistök við kosningu síðast og úr því þarf að bæta. Lög félagins eru mikilvæg og ber að sjálfsögðu að virða. Sem sagt auka aðalfundur á undan ferðafundi þann 18 apríl kl. 14:00.

Nú eru dagsetningar ferða komnar á hreint svo endilega takið þær frá.

Ferðir sumarsins verða sem hér segir.

  1. 15. – 17. maí.
  2. 29. maí – 1. júní Hvítasunnuferð.
  3. 12. – 14. júní
  4. 26. – 28. júní
  5. 10. – 19. júlí Stóra ferðin
  6. 14. – 16. ágúst
  7. 28. – 30. ágúst
  8. 11. – 13. september

Sem sagt bráð skemmtilegt sumar fram undan eins og alltaf.

En hvert förum við? Hvar gistum við? Hvað verða ferðirnar margar í ár? Eltum við rigninguna eða verður drauma veður? Blása vindar eða verður logn?

Síðustu tveim spurningum skal ósvarað en þegar allt kemur til alls er það sól í sinni sem skiptir máli, ekki satt?

Hlökkum til að hitta ykkur þann 18. apríl og upplýsa um leyndardóminn mikla varðandi ferðir sumarsins.

 

Kær kveðja

Elín Fanndal

formaður.

Efst í eyðublaði


Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *