Frá formanni

Kæru félagar og vinir

Nú eru allar ferðir komnar inn hér á heimasíðuna husbill.is.

Ég hvet ykkur til að skoða þær og að sjálfsögðu að reyna sem allra flest að kíkja í heimsókn í litla færanlega þorpið okkar sem oftast í sumar.

Það er ekki víst að við leggjum að stað í fyrstu ferð í maí eins og planað er en við sjáum til. 

Þetta eru sannarlega skrítnir tímar sem við erum að upplifa núna. Það væri að bera í bakkafullann lækinn að fara nánar út í hvað ég á við. Það dugar að nefna eitt orð Covid-19! 

Ferðafundur féll niður sökum þess og þið fáið félagatalið ásamt skírteinum sent í pósti. Við hefðum viljað vera búin að senda það en aftur nægir að nefna orðið Covid-19 sem sökudólg. Litlaprent keyrir á takmörkuðu vinnuafli sökum sóttvarnareglna sem eru í gildi. Þannig að prentun tafðist en verður lokið í síðasta lagi á föstudag og þá bregst stjórn fljótt við og sendir þau til ykkar. Það var rætt að reyna að takmarka kostnað og fá félaga til að bera út sem mest en mín skoðun er sú að fyrst að þetta tafðist svona sé réttast að senda þau strax í pósti til ykkar svo þið getið nýtt þá afslætti sem í boði eru sem fyrst. 

Við látum ekki deigann síga og horfum bjartsýnis augum til sumarsins. Vorlaukar eru byrjaðir að kíkja uppúr moldinni, veður tekið að mildast og greinilegt vor í lofti. Náttúran lætur sem ekkert sé og það ætti að kenna okkur að ástandið muni lagast. Við þurfum að vera þolinmóð og fyrir alla muni passasöm kæru vinir, þá fer allt vel.Sumarið er handan við hornið og bíður okkar með öllum sínum töfrum. Þorpið okkar mun rúlla af stað innan tíðar og við munum öll hversu gott það er að vera með góðum vinum sem tímabundið þar búa. 

Það hófst umræða á fésbókarsíðu okkar um hvort félagið hafi eða muni beita sér fyrir breyttum samþykktum sveitarfélaga varðandi tjaldstæði og gistingu utan þeirra, sem sagt að reyna að ná því fram að við fengjum meira frjálsræði en verið hefur. Ég lagði þetta fyrir stjórn og útkoman varð sú að stjórn felldi þessa tillögu. Félagið hefur ekki sem slíkt beitt sér fyrir þessu og meirihluti stjórnar telur ekki tímabært á þessum krepputímum að gera það. Það ríkir mikil óvissa hjá tjaldstæðavörðum eins og annarstaðar, og við teljum að við ættum  frekar að styrkja þau vegna þess. Félag húsbílaeigenda mun beita sér fyrir því að fá afslátt hjá enn fleiri tjaldstæðum fyrir sumarið og afrakstur þeirrar vinnu verður kynntur fljótlega. Er það von stjórnar að almennur skilningur ríki á meðal félaga okkar vegna þessa. Ég vil nota tækifærið og hrósa þeim félögum sem hafa upp á eigin spítur reynt að fá þessum reglugerðum hnikað. 

Félagar hafa velt fyrir sér heimasíðu okkar husbill.is og vissulega get ég tekið undir það að hún mætti vera virkari. Ég minni þó á að engin keðja er sterkari en veikast hlekkurinn og það er öllum frjálst að senda til netstjóra okkar allskonar efni sem fólk vill sjá þar. Svo endilega ef þið eruð með eitthvað markvert, fræðandi eða bara skemmtilegt þá sendið tölvupóst á netstjori@husbill.is  og því verður snarað inn í hvelli ef ég þekki Helga rétt.

Kæru vinir.

Það  er gaman að sjá að þið eruð mörg hver búin að sækja bíla ykkar og byrjuð að ditta að þeim fyrir sumarið. Við skulum halda okkar striki og verum áfram bjartsýn á að sumarið verði okkur farsælt sem ferðalöngum. Við erum lukkunar pamfílar að búa hér og getum hrósað þríeikinu okkar þeim Víði, Þórólfi og Ölmu fyrir að halda ótrúlega vel utan um okkur á þessum hamfaratímum. Við getum líka hrósað stjórnvöldum fyrir að halda sig til hlés og láta þau um stjórnina. Svo skulum við að lokum hrósa okkur sjálfum fyrir skynsemi, þolinmæði og kjark til að takast á við þessar aðstæður.

 

Húrra fyrir okkur öllum! 

Bestu kveðjur til ykkar allra.

Elín Fanndal.

Formaður.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *