Frá formanni.

Góðan daginn kæru vinir. Lítið að gerast hjá okkur Daða hvað útilegur varðar þessa dagana. Vinnan mín hefur aukist ef eitthvað er vegna ástandsins. En eins og sumir vita þá vinn ég sem félagsliði í þjónustu íbúðum fyrir geðfatlaða. Við þurfum því öll 3. í fjölskyldunni að gæta okkar sérstaklega vel því skjólstæðingar mínir eru öll með undirliggjandi sjúkdóma. Lukkan var sannarlega með mér þegar ég ákvað að  skipta um vinnu eftir að ég flutti í Þorlákshöfn og hætta sem leiðsögumaður. Annars stæði ég uppi atvinnulaus og án allrar tryggingar varðandi laun í dag. En vonandi lagast ástandið kæru félagar þegar líður á sumarið. Við í stjórn og nefndum munum ekki slá af hvítasunnuferð alveg strax. Það er þegar búið að leggja mikið til hennar og væri afar leiðinlegt að aflýsa henni. En að sjálfsögðu verður það gert ef við náum ekki að láta hana standast þær reglur sem þríeykið okkar góða setur. Það er kannski, bara kannski möguleiki að breyta henni á einhvern hátt svo að við fáum grænt ljós. En þetta eru nú bara vangaveltur hjá formanni sem er bókstaflega farin að þrá að hitta gott og skemmtilegt fólk í útilegu.

Elsku þið, vorið er komið og grundirnar gróa. Ég segi eins og Mosi litli páfagaukurinn okkar sem kom öllum á óvart með því að byrja að tala og það alveg helling.

Þetta reddast!

Kær sumar kveðja

Elín Fanndal

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *