Í lok Stóru ferðar 2020

Kæru félagar og vinir.

Þá er Stóru ferð okkar lokið þetta sumarið.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel og frábært að skynja gleði og samheldni fólks nú sem endranær.
Veðrið var sannarlega ekki eins og best verður á kosið í þetta sinn en það stoppaði ekki um 138 manns að taka þátt í ferðinni. Glæsileg þátttaka, sérstaklega þegar tekið er mið af veðurspá og ástandinu í þjóðfélaginu.

En Covid-19 hafði þó sín áhrif, ég tilkynnti við setningu ferðar að við fjölskyldan myndum þurfa að fara úr ferðinni til að vera við fermingu á Hvammstanga, ferming sem átti að vera í vor var frestað til 18. júlí sökum sjúkdómsins. Svo kom þessi afleita veðurspá í ofanálag svo við fórum á fimmtudagskvöldinu til að vera örugg um að komast. Þetta var ansi mikill þeytingur en allt hafðist þetta og við náðum að koma aftur á slaginu kl. 19:00 á laugardagskvöldið og taka þátt í glæsilegu lokahófi, maturinn maður minn, góð skemmtiatriði og snilldar hljómsveit gerðu loka kvöldið alveg frábært í alla staði.

Fáir voru viðstaddir setninguna á Akranesi vegna rigningar og rigningin setti áfram mark sitt á ferðina. Það rigndi eldi og brenni steini í Húsafelli en þá var aðeins meiri friður fyrir bannsettri flugunni. Margir voru illa útleiknir eftir þann vá gest, hvort sem það var lúsmý eða bitvargur, á meðan aðrir sluppu betur. Fólk varð órótt vegna flugu og slæmrar veðurspár og því fóru margir á fimmtudeginum yfir í Brún, við því er ekkert að gera og ferðanefnd brást strax við með því að óska eftir að fá að leigja húsið frá fimmtudeginum, það var auðsótt mál og allir höfðu þak yfir höfuðið á fimmtudagskvöldinu. Eitt vil ég ítreka hér og það er mikilvægi þess að gefa þeim forgang á stæði við hús sem eiga erfitt með gang. Höfum það í huga t.d í Furðufataferðinni sem verður í Fólkvangi á Kjalarnesi 28-30 ágúst.

Ég vil þakka Helga netstjóra nr. 131. hans ötula starf við að taka myndir í ferðum félagsins, það er bæði gaman og einnig ómetanlegt að fá þessar heimildir frá ferðum okkar.

Ég vil þakka hljóðfæra leikurum Tryggva nr. 40. Sigga nr. 125. Þorvaldi nr. 176. Daða nr. 233, Lárusi nr. 610, Ernu nr. 176 og öðru söngfólki fyrir þeirra framlag. Þið ásamt góðum félagsanda og samheldni hópsins gerið allar ferðir okkar einstakar. Ef ég er ekki að nefna alla sem voru í forsvari biðst ég velvirðingar á því.

Ég vil hæla Jónatani nr. 111. fyrir hans góðu hugmynd varðandi það að fá fólk til að segja frá hvaða hugmynd lá að baki nafnagift á bílinn. . Nú er stórafmæli félagsins rétt handan við hornið, það verður 40 ára árið 2023. og eins gott að fara tímalega að hugsa fyrir því að gera það sem glæsilegast úr garði. Útbúa afmælisrit og er tilvalið að setja inn sögur fólks þar um. Ég bið einnig þá félaga sem eru með hugmyndir og eða efni í blaðið að halda þvi til haga.

Það sýndi sig um leið og við vorum komin með hús til umráða í þessari rigninga ferð okkar að fólk brast nánast strax í söng og dans, gleðin réð ríkjum og allir búnir að stein gleyma blautu dögunum. Og þá meina ég bleytuna utan frá ekki innan í. Það telst aldrei með sú gleymska.

Viðtalstímarnir tókust vel það mætti engin. Ykkur finnst kannski skrítið að ég sé ánægð með það en það segir okkur einfaldlega að þið sem komið með í ferðir eruð hæst ánægð með félagið og félagskapinn. Ég mun halda áfram að bjóða upp á viðtöl, þegar ég er með í ferðum.
Ég minni á að það vantar enn aðila í stjórn og nefndir, hafið samband ef áhugi er fyrir að vinna með skemmtilegu fólki að áframhaldandi farsælu gengi félagsins.

Ég vil ítreka mikilvægi þess að fylgjast grannt með gangi mála á tölvunni. Við lifum á 21. öldinni og verðum að haga okkur í takt við það. Allar upplýsingar um starfsemi félagsins sem fram undan eru, eru kynntar á husbill.is og í hópnum okkar á fésbókinni. Hópurinn heitir Félag húsbílaeigenda og þið sem ekki eruð það inni ættuð að sækja um aðild sem fyrst. Það er skemmtilegur og virkur hópur. Ef þið eruð ekki með tölvu þá er hægt að leita til nákominna til að fá að kíkja á husbill.is Eða kíkja til félaga sem eru með fésbókina.

Ég vil að lokum þakka stjórn og nefndum innilega fyrir þeirra óeigingjarna starf í þágu félagsins. Það er rífandi uppgangur í félaginu og stefnir í met aðsókn þetta ár. Við erum á ný farin að sjá yngra fólk og börn í ferðum okkar, sem er ekki bara ánægjulegt heldur bráð nauðsynlegt til að félagið dafni og eflist áfram um ókomin ár. Uppgangi fylgir að sjálfsögðu meiri umsvif og meira álag á þau sem starfa fyrir félagið og þá er ómetanlegur eiginleiki að geta tosað hana Pollýönnu okkar upp á yfirborðið og beitt henni fyrir sig. Það er alþekkt ráð sem virkar, ég vil þakka ykkur góða fólk sem hafið gert akkúrat það. Án ykkar væri félagið ekki það sem það er, jákvætt viðmót okkar, dugnaður og styrkur skilar sér margfalt til hins almenna félaga.

Bestu þakkir fyrir frábæra ferð.
Húrra fyrir ykkur,

Elín Fanndal.
Formaður.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *