Opið bréf til Umhverfisráðherra vegna frumvarps um Hálendisþjóðgarðs

Opið bréf til Umhverfisráðherra vegna frumvarps um Hálendisþjóðgarðs

Hvað hefur orðið um Almannaréttinn?

Undirrituð er í Félagi húsbílaeigenda en í því eru hátt í þúsund félagar, ég er jafnframt fulltrúi félagsins í Samút, Samtökum útivistarmanna. Einnig er ég skipuð af ráðherra sem aðalfulltrúi í Svæðisráði Suður í Vatnajökulsþjóðgarði fyrir Samút. Undirrituð hefur ferðast um hálendið og Ísland allt á ferðabíl / húsbíl um 40 ára skeið og er mikil áhugamanneskja um náttúru og ferðalög.

Þegar ég var að byrja að ferðast á mínum húsbíl var almannarétturinn í fullu gildi. Við húsbílafólk ferðuðumst í fullri sátt við umhverfið þó við værum ekki alltaf í fullri sátt við tjaldsvæðin þar á meðal tjaldsvæði innan Þjóðgarða. Á níunda áratugnum vorum við alls ekki velkomin á öll tjaldsvæði og er þar helst að nefna tjaldsvæðið á Þingvöllum en þaðan var okkur vísað burt á húsbílum með þeim orðum að við gætum skemmt grasið og tjaldsvæðið væri fyrir tjöld. Viðkvæðið var það sama á fleiri tjaldsvæðum, þau voru fyrir tjöld en ekki bíla.

Nú er staðan þannig að við megum hvergi vera nema á tjaldsvæðum.

Við ferðuðumst um landið og fundum okkur fallega staði þar sem auðvelt var að leggja bíl án þess að það sæust hjólför eftir okkur. Gamlir vegslóðar buðu upp á leiðir að áningarstöðum þar sem við gátum verið án þess að trufla nokkurn mann.

Nú vinnur vegagerðin hörðum höndum í því að grafa sundur gamla vegslóða eða loka þeim með stóru grjóti þannig að engin geti ekið um þá.

Smátt og smátt sáu tjaldsvæðarekendur og sveitarfélög sé hag í því að smala húsbílum og ferðavögnum inn á tjaldsvæðin. Þá vorum við hjá Félagi húsbílaeigenda reyndar árum saman búin að hvetja rekstraraðila tjaldsvæða til þess að koma sér upp wc losun til þess að við hefðum eitthvað til þeirra að sækja. Árlega sendum við bréf á öll tjaldsvæðin með myndum og skýringum á því hvernig svona losun ætti að vera til þess að uppfylla allar reglur. Þetta var á tíunda áratugnum.

Síðan var almannaréttinum eiginlega stolið frá okkur í skjóli nætur. Hægt og rólega var lögunum breytt og okkur loks bannað, í raun og veru með lögum, sem sveitarfélög nýttu sér og hnykktu á með lögreglusamþykktum út um allt land þar sem fólk á Húsbílum/ferðavögnum er næstum því lagt í einelti ef það leggur bíl sínum annars staðar en á tjaldsvæði.

Skv, Náttúruverndarlögum frá því 1996; þá máttum við á húsbílum og öðrum ferðavögnum dvelja á landsvæðum utan lögbýla og það gerðum við og settum metnað okkar í að ganga vel um.

 93/1996: Lög um náttúruvernd | Lög | Alþingi (althingi.is)

    14. gr. Almenningi er heimil för um landsvæði utan landareigna lögbýla, svo og dvöl á þessum svæðum í lögmætum tilgangi

Lög þessi héldust óbreytt amk fram til ársins 2000 en næsta breyting sést ekki fyrr en árið 2013 þá kom inn breyting sem er þvílík langloka að hún verður ekki sett inn hér, aðeins vísað í lög inn á Alþingisvefnum. Þar með er almannarétturinn ekki lengur til. Almannarétturinn sem hefur fylgt þjóðinni svo lengi sem elstu menn muna er þurrkaður út án þess að fólk hafi eiginlega tekið eftir því.

Nú má eiginlega ekki gera neitt, og sum lögin eða reglurnar stangast á, því skv. lögreglusamþykktum sem sveitarfélögin keppast við að setja, þá má ekki lengur stöðva bíl og sofna smá stund á meðan Samgöngustofa hvetur fólk til að hvíla sig og ef þreyta sækir að;

“Ef syfja og þreyta sækir að er gott að leggja bílnum á örgggum stað (ekki á veginum) og hvílast, jafnvel sofna, þótt ekki væri í nema 15 mínútur”.

Lögreglusamþykktir sveitarfélaganna sem allar virðast sækja stuðning í Náttúruverndarlög virðast rétthærri öllum öðrum reglum og skynsemi, því hvar sem húsbíll stoppar kemur einhver, annað hvort lögregla, landvörður eða sjálfskipuð löggæsla og tilkynnir viðkomandi húsbílafólki jafnvel með þjósti að það sé að brjóta lögin, það megi ekki vera þarna og eigi að koma sér í burtu.

Það er ekki góð tilfinning að vera óvelkomin í eigin landi.

Ef nýtt frumvarp um Miðhálendisþjóðgarð verður samþykkt þá færast mikil völd til stjórnenda þjóðgarðsins sem og landvarða. Okkur ferðalöngum verður gert ennþá erfiðara um vik, bæði að ferðast og að dvelja á hálendi Íslands.

Það er sama hve fallega 18. greinin í frumvarpinu hljómar, hún er bara alls ekki trúverðug; Almenningi er heimil för um Hálendisþjóðgarð og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Um leið og það þarf að segja okkur að við megum vera stödd í okkar eigin landi þá er eitthvað ekki í lagi. Enda þegar frumvarpið er lesið þá kemur hið sanna í ljós. Það þarf að fá leyfi fyrir flestu, þú mátt ekki vera nema á fyrirfram ákveðum stöðum, þú þarft að fá leyfi fyrir viðburðum, leyfi fyrir drónum, gömlum leiðum verður lokað og fyrr en varir verður farið að selja inn í þjóðgarðinn.

Það versta er að stefnan er að yfirfylla þjóðgarðinn af erlendum ferðamönnum til að standa undir kostnaði við rekstur hans. 

Jafnræðisreglan.

Með orðinu tjöldun í frumvarpinu tel ég að verið sé að brjóta á akandi ferðamönnum og visa þar í jafnræðisregluna og tel réttara að tala um náttun.

Jafnræðisreglan hljómar svo; Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Það er verið að brjóta á okkur vegna mismunandi ferðamáta.

Í þessu sambandi má einnig benda á réttarstöðu fatlaðra, um leið og aðgengi er heft að ýmsum leiðum og stöðum og þær eingöngu ætlaðar fyrir gangandi ferðamenn þá er verið að brjóta á fleirum en okkur.

Bls 107 Stjórnar – og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð 2013

9.4. þjónustusvæði. Tjaldsvæði

Skilmálar um tjöldun utan merktra tjaldsvæða: Fjarri skipulögðum tjaldsvæðum er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur. Hópar þar sem eru 10 tjöld eða fleiri þurfa þó leyfi þjóðgarðsvarðar.

Það er sem sagt í lagi að tjalda allt að 9 tjöldum fjarri skipulögðum tjaldsvæðum en ferðabílar mega hvergi dvelja þrátt fyrir að vera með alla aðstöðu og einmitt útbúnir til þess að dvelja fjarri mannabyggðum. Eðlilega er okkur ferðabílafólki mjög illa við orðið “Tjöldum” við jafnvel spyrjum okkur hvort það sé nóg fyrir okkur að henda út tjaldi og fara svo að sofa í bílnum?

En hvers vegna þessi mismunur á milli hópa?

Það er ekki laust við að maður hafi það á tilfinningunni að sjálfskipaðir náttúruverndarsinnar hafi haft hönd í bagga með að bola þessum hópi ferðamanna út af hálendinu, þegar ég segi sjálfskipaðir þá á ég við að þeir álíta sig yfir aðra hafna í náttúruvernd. Við ökum um á þessum ferðabílum erum einnig náttúruverndarsinnar, við viljum fá að njóta náttúrunnar og við höfum sama rétt til þess og þeir sem geta farið gangandi allra sinna ferða.

Akandi ferðamönnum finnst mjög óeðlilegt að þess sé krafist að við ökum einhverja 50 til 100 km leið að kvöldi til að leita að tjaldsvæði þegar við þyrftum jafnvel að aka sömu leið morgunin eftir til að halda förinni áfram. Það getur ekki talist vera umhverfisvænt. Þetta er ekki, alls ekki spurning um tjaldsvæðagjald, þetta er spurning um frelsið sem við höfum vanist, að ferðast á hálendinu, það er jafn dýrmætt okkur sem ferðumst um á ferðabílum eins og þeim sem ferðast um á tveimur fótgangandi. 

Þegar húsbílafólk var að byrja að ferðast máttu þau alls ekki vera á tjaldsvæðum því þau voru eingöngu fyrir fólk með tjöld. Nú má þetta fólk eingöngu vera á tjaldsvæðum.

Þess vegna óskum við eftir því við Umhverfisráðherra að orðinu “tjöldun” verði skipt út fyrir “náttun” í frumvarpinu, þannig að við getum, ef þannig háttar til náttað þar sem aðstaða er til og við röskum engu. Þetta þarf að gera til þess að sátt náist við ferðalanga sem ferðast með húsið með sér.

Það kom fram á fundi með þér Guðmundur Ingi að breytingartillaga þurfi að koma frá þinginu til þess að þetta geti orðið,- þess á ekki að þurfa hvað varðar frumvarp um hálendisþjóðgarð. Ég legg það hér með í þínar hendur, ráðherra að leggja fram tillögu um samhljóða breytingar á náttúrverndarlögunum og öðrum lögum þar sem náttun er takmörkuð. Það er mikilvægt að ná fram sátt og réttlæti fyrir þennan hóp notanda og njótenda hálendisins.

Náttúruvernd í Noregi

Við berum okkur oft saman við Norðurlöndin þegar kemur að ýmsum málum ekki síst náttúruvernd. Það kom mér því verulega á óvart þegar ég ferðaðist um Noreg árið 2019 og upplifði sama frelsi eins og ég væri að ferðast um Ísland árið 1990 en bara margfalt betri þjónustu. Norðmenn halda í heiðri Almannaréttinum sínum og eru afar stoltir af. Þeim er frjálst að ferðast á þann hátt sem þeir kjósa, veiða sér til matar, tína ber og kveikja varðeld. Að sjálfsögðu bera ferðamenn skyldur, allir sem hafa einhvern rétt hafa skyldum að gegna, þeir bera virðingu fyrir náttúrunni, umhverfinu, náunga sínum og ganga vel um.

„Öllum er heimilt að ferðast og vera undir berum himni í Noregi. Réttur til aðgangs almennings er ókeypis almannaheill og hluti af menningararfi okkar. Það veitir þér rétt til að nota landið óháð því hver er landeigandi. “

 

Her eru 5 af 12 umgegnisreglum Norðmanna:

  1. Umferð véknúinna ökutækja um opið land er í grundvallaratriðum bönnuð.
  2. Þegar þú leggur ökutæki verður þú að ganga úr skugga um að þú truflir ekki eða lokir ekki fyrir umferð. Þú verður einnig að tryggja að bílastæðið brjóti ekki í bága við umferðarreglur eða staðbundnar takmarkanir.
  3. Það er ekki leyfilegt að tjalda á þar til gerðum nestisstöðum meðfram veginum, en það er leyfilegt að nátta þar eina nótt með húsbíl /ferðavagni  á ferð um landið okkar.
  4. Vertu meðvitaður um að það geta verið sérstakar umferðarreglur innan svæða sem eru vernduð samkvæmt náttúruverndarlögum, t.d. þjóðgarðar og friðlönd.

Allemannsretten – en del av den norske kulturarven (ferda.no)

 

Niðurlag

Á sama tíma og ferðafólki á vel útbúnum bílum, alvant ferðalögum er meinað að ferðast um hálendið skv hinum gamla hefðarétti mega göngumenn tjalda allt að 9 tjöldum og göngumennirnir mega svo skilja eftir sig úti í náttúrunni stykki sín eftir því sem náttúran kallar. En ferðafólkið á ferðabílunum má alls ekki sofna á sinni leið þó svo að ökutækið innihaldi wc, eldhús og allt sem þarf til útilegu.

Bara þetta eina orð; tjöldun mismunar fólki á ferðalögum verulega og er nauðsynlegt að skipta því út fyrir orðið, náttun.

Það er einnig spurning hvort við þurfum á þjóðgarði að halda þar sem meginstefnan er að auka túrisma? Samkvæmt því sem ráðherra segir þá á þjóðgarður að vera aukið aðdráttarafl, ekki síst stærðar sinnar vegna. Ég spyr á móti, er ekki betra að láta kyrrt liggja og sleppa því að beina svona mikilli athygli að hálendi Íslands og sleppa við allt það álag sem fylgir massatúrisma? Við sem erum vön að ferðast um hálendið kjósum einmitt friðinn sem þar að finna. Er kannski besta friðunin fólgin í því að sleppa þjóðgarði?

Höldum okkur við þjóðlendur og friðlönd, sleppum landvörðum með lögregluvald sem vekja fólk upp og skipa því í burtu. Þegar það gerist er eins og maður sé ekki velkomin í eigin landi.

Hættum að láta eyðileggja gamla slóða, villuslóða eins og þeir kallast hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Það er ástæða fyrir því að þessir slóðar urðu til og oftast er það vegna þess að það er eitthvað áhugavert að skoða þar. Það á frekar að laga gamla slóða því það er besta leiðin til að koma í veg fyrir utanvegaakstur.

Gleymum því ekki hvers vegna við þekkjum hálendið, marga króka þess og kima. Það er vegna manna, landkönnuða sem fóru um það í árdögum vegagerðar og bílaaldar og könnuðu hálendið fyrir okkur, fundu bestu leiðirnar og mörkuðu fyrir hvar best væri að fara. Þegar við tölum um hálendið þá skipta nefnilega ökutæki líka máli. Ekki bara tjöld, boð og bönn.

Það er nóg rými fyrir þá sem vilja ganga um hálendið þrátt fyrir það, alveg eins og að stjórnvöld hafa komið fyrir virkjunum í sátt við náttúruverndarsamtök að því er virðist.

Við þurfum að finna sátt sem sameinar alla. Ferðafólk sem ferðast um á bílum er útivistarfólk sem elskar náttúruna, en þetta fólk vill fara um á sínum bílum. Því verður ekki haggað.

Sigríður Arna Arnþórsdóttir

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *