Fréttabréf 3.ágúst 2021

Góðan daginn kæru félagar. 
Þá er formaður komin heim í stutt stopp úr sumarfríi og eitt af fyrstu verkum var að setja saman þennan júlí pistil. Það sem kemur fyrst upp í hugann er hversu stóra ferðin okkar gekk ljómandi vel.
Það ber fyrst og fremst að þakka okkur sem stóðu að henni, það mættu heilt yfir 108 bílar sem er að því að mér skilst met í fjölda, og ekki síður ykkur sem sýnduð þolinmæði yfir þeim breytingum sem urðu á ferðinni sökum fjöldans.
Allar áætlanir stjórnar og nefnda miðuðust við 70-80 bíla svo það þurfti að leysa þau verkefni sem fylgdu þessum aukna og að sjálfsögðu velkomna fjölda.
Ferðin hófst á Hvammstanga og þar nýttum við okkur nútímatækni og ég gat sett hana þar sjálf formlega þó ég væri stödd á kvöldvakt á vinnustað mínum í Þorlákshöfn. Þessi tilraun gafst vel að mínu mati.
Ég hafði fregnir af því að einhverjir hefðu býsnast yfir þvi að að formaðurinn væri ekki á staðnum til að setja stærstu ferðina. Af því tilefni vil ég minna á að þegar ég tók við sem formaður var ekki beinlínis slegist um embættið og ykkur flestum ljóst að ég væri í fullri vinnu með þessu hlutverki. Þau ykkar sem ekki vissu það þá og lesa þennan pistill er það þá full ljóst núna.
Ég kom inn í ferðina á mánudeginum á Steinstaðarflöt í Skagafirði, alsæl með að vera komin í sumarfrí eftir stranga vinnutörn, og ekki skemmdi það að byrja fríið með ykkur kæru félagar. Þeð er gömul saga og ný að þetta félag okkar er einstakt á landsvísu. Það að geta haldið þessum góða anda í svo stórum og fjölbreyttum hópi fólks er magnað. Nú státum við einnig af mörgum nýjum, áhugasömum félögum sem vilja ferðast með okkur og jafnvel taka þátt í að halda utan um félagið, það er sannarlega mikið gleðiefni. Einhver sagði við mig í ferðinni, við erum að yngjast aftur og ég tek undir það, við erum að ná inn endurnýjun í okkar góða félag og tryggja vonandi þannig áfram farsælan framgang þess. Við skulum átta okkur á því að á þessum tímum sem við lifum á er svona félagskapur ómetanlegur fyrir alla sem þá sem kunna að meta það að komast út úr stressi og kapphlaupi nútímans inn í friðsæld, samveru söng og gleði.
Strax á mánudeginum sýndu veðurguðir að þeir yrðu okkur hliðhollari nú en í fyrra í Stóru ferð, sælla minninga…….rigning…..rok….rigning…….sól…..rigning…….fluga…..flugnabit….rigning 
Frá Steinstaðarflöt héldum við í Hauganes og þar beið okkar heldur betur upplifun. Staðarhaldarinn hann Elvar Reykjalín mætti á fjórhjóli, veitti hákarl hægri vinstri og sagði gleðisögur á meðan. Um hann safnaðist hópur af þakklátu og kátu fólki, svo heyra mátti hlátur og glaðværð langar leiðir. Ég vil geta þess strax að það var þarna í Hauganesi fólk í húsbíl, ekki á okkar vegum sem sýndi af sér dónaskap við staðarhaldara og var um tíma haldið að þetta væru félagar okkar. En auðvitað gat það ekki verið, við erum rómuð fyrir kurteisi og snyrtimennsku og viljum vera þannig. Þegar ég kvaddi Elvar á föstudeginum var hann hálf klökkur af þakklæti í okkar garð og bað mig fyrir góðar kveðjur til ykkar. Hann trúði mér fyrir því að það hefði verið smá rekistefna innan þorpsins vegna þessa stóra hóps sem væri væntanlegur og myndi mögulega vera með háreysti fram eftir nóttu. Svo reyndust bæjarbúar varla vita af okkur þegar á reyndi og voru alsælir með heimsóknina.
Þarna var líka að mér finnst toppur ferðarinnar eða leiðsöguferðin okkar um Svarfaðadal. Við fylltum tvær rútur og fengum tvo frábæra leiðsögumenn, þá Óskar Þór Halldórsson og Hjörleif Hjartarson til að fræða okkur um sögu dalsins. Til að gera langa sögu stutta þá var þessi ferð svo mögnuð að fjórir klukkutímar æddu hjá og við komin til baka áður en við vissum af. Félagið greiddi niður ferðina um Svarfaðadal og allir voru mjög ánægðir með túrinn. Það má þakka Erlu Vigdísi nr. 111 fyrir hana því þessi frábæra hugmynd kom frá henni.
Frá Hauganesi héldum við á loka áfangastað í Hrafnagil. Alveg frá því að ég hóf undirbúning fyrir ferðina hafði ég verið í sambandi við formann kvenfélagsins Hjálpin og sú kona óx jafnt og þétt í áliti hjá mér frá fyrstu kynnum, þvílíkur víkingur og jákvæð og lausnamiðuð. Þegar ég pantaði matinn fyrst þá var talað um 130 manns, svo hækkaði talan undir lokin, dag frá degi og endaði í 205. Við hvert samtal hélt hún ró sinni og viðmótið var ávalt, þetta reddast, við leysum þetta bara Elín. Kona að mínu skapi! Svo vil ég lýsa miklu þakklæti fyrir viðmót íbúa á Hrafnagili. Það var ljóst að við værum orðin of mörg í húsið, ég hafði upp á umsjónamanni fasteigna Eyjafjarðarsveitar og falaðist eftir aukaborðum og stólum frá sveitarfélaginu. Ekki málið, ég kem með það sem þú þarft og nei ég tek ekki krónu fyrir það sagði þessi einstaklega hjálpsami maður sem heitir Elmar Sigurgeirsson.
Við náðum svo að raða þannig upp fyrir laugardagskvöldið að allir fengu sæti og reyndist það passa svo nákvæmlega að ekki var eitt umframsæti.
Skemmtinefndin, EInar Vídalín nr. 221, kvenfélagið Hjálpin, Daði nr. 233, Jónatan nr. 111 og veislustjórinn okkar frábæri hann Garðar Geir Sigurgeirsson nr 22 sáu svo til þess að allir voru ákaflega glaðir með kvöldið. Garðar ætlar að sjá um veislustjórn á árshátíðinni okkar ef Guð lofar. Stulli og Danni sáu svo um dansleikinn og slógu um leið botn í Stóru ferðina okkar í ár.
Heilt yfir var þetta alveg frábær ferð og ég vil aftur þakka öllum þeim sem lögðu sitt að mörkum til að gera hana svo glæsilega sem raun bar vitni. Enn og aftur vil ég líka þakka okkar frábæru hljóðfæraleikurum sem héldu uppi söng og gleði út alla ferðina sem og allar aðrar ferðir félagsins. Þið eruð einn af stólpum félagsins kæru vinir og fyrir það erum við hin óskaplega þakklát.
Næsta ferð félagsins verður svo Vestmannaeyja ferðin okkar, spennandi ferð þar sem félagar fara og skemmta sér sjálfir, kynnast bæjarmenningu og náttúrufegurð eyjanna, þar verður engin formleg dagskrá. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur hvað er í boði í Eyjum tímanlega og panta fyrirfram ef að þess þarf.
ATH!
Það er breyting á ferðinni í Vonarland!
Sú ferð verður farin í Vatnsholt í staðinn, við eigum pantað á tjaldstæðið við Hótel Vatnsholt. Þessi breyting kemur til af því að við búumst við auknum fjölda og þá er tjaldstæðið á Vonarlandi of lítið. Kynnið ykkur endilega Hotel Vatnsholt á netinu, glæsileg aðstaða, stórt tjaldstæði og svo stóð til að halda alvöru sveitaball þar á okkar helgi en við sjáum hvað setur með Covid hömlur þegar þar að kemur. Hún vildi allavega að við vissum af því áður svo engin myndi kvarta yfir hávaða frá þeim þegar á reyndi. Við borgum kr.1000 á mann fyrir sólahringinn, engin afsláttur á rafmagni.
Við sjáumst svo einhver kát og hress í Vestmannaeyjum kæru vinir.
Húrra fyrir okkur öllum í okkar frábæra Félagi húsbílaeigenda þar sem yfir 50 nýjir bílar hafa bæst í okkar góða hóp frá áramótum.
Hjartanlega velkomin í okkar góða hóp nýju félagar og takk fyrir afar góð kynni. 
Kær kveðja
Elín Fanndal nr 233
Formaður.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *