Fréttabréf í janúar 2022

Sæl kæru félagar.
Þá hefur stjórn fundað í fyrsta sinn á þessu ári. Það áttu vissulega að vera stjórnar og nefndar fundir heima hjá formanni en eins og þið vitið þá gerðist svolítið og það var sett út af borðinu í bili.
 Open photo
En fjarfundur skilaði okkur góðum árangri. Við náðum að tilnefna ritnefnd fyrir afmælisár félagsins sem er á næsta ári, þá verður okkar góða félag hvorki meira né minna en fjörutíu ára gamalt.
Ég leitaði svo á náðir fjögurra fyrrum formanna félagsins og heiðursfélaga, þeirra Sigríði Örnu Arnþórsdóttur nr. 280, Soffíu G. Ólafsdóttur nr. 24, Ásgerðar Ástu Magnúsdóttur nr. 501 og Björns Þorbjörnssonar nr. 10. Þetta heiðursfólk mun leiða saman hesta sína og senda á netstjóra afrakstur samstarfs síns sem verður svo sett inn á husbill.is fyrir stór afmælið. Já þið lásuð rétt, afmælisrit félagsins verður í rafrænu formi inn á heimasíðu félagsins að þessu sinni. Þannig sparar félagið umtalsverðar fjárhæðir í prentunar kostnað og þið getið gengið að “ritinu” vísu um ókomin ár.
Ég vil þakka þessum góðu félögum okkar innilega fyrir jákvæð og hlýleg viðbrögð við þessari bón stjórnar.
Eins fórum við yfir það sem þarf að gera til að virka starf okkar og skipta með okkur verkum. Varaformaður félagsins var kosin Garðar Geir Sigurgeirsson nr. 22. Ritari stjórnar er Sigríður Einarsdóttir nr. 204, vararitari er Guðný Elín Geirsdóttir nr. 22. Stjórnin skipti með sér auglýsingum í félagatal okkar fyrir árið 2022 og yfirfór það sem þarf að vinna fyrir þetta starfsár. Þetta var hinn fínasti fjarfundur sem tók næstum tvær klukkustundir. Vil ég hrósa stjórnar fólki fyrir hversu flink þau eru orðin við þessa fundar aðferð.
Við stefnum ótrauð á að hittast í raun heimi, stjórn og nefndir um leið og færi gefst, þessar síðustu hömlur skullu á okkur sólahring áður en við höfðum ákveðið að hefja fyrsta fund ársins heima hjá formanni. En þannig er lífið krakkar mínir, það eru brekkur og við bara fetum þær áfram og að lokum léttist skrefið aftur.
Næsta dagsetning stjórnar og nefnda funda er áætluð þann 12 febrúar heilbrigðisyfirvöld gefa grænt ljós.
Kæru vinir.
Ég bið ykkur í einlægni um að sýna áfram ýtrustu varkárni á þessum víðsjárverðu tímum. Þessu virðist því miður ekki vera nærri lokið.
Með von um gott og farsælt ferðaár hjá okkur öllum í Félagi húsbílaeigenda.
Fyrir hönd stjórnar og nefnda.
Elín Fanndal
Formaður.
Félag húsbílaeiganda
HUSBILL.IS
Félag húsbílaeiganda

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *