Fréttabréf febrúar 2022

Góðan og blessaðan daginn kæru félagar.
Þá hafa stjórn og nefndir hist á fyrsta fundi starfsársins.
Það var að venju gaman að hitta mannskapinn og skynja ferska orku og óþreyju fyrir komandi ferðatímabili. Við státum okkur af úrvalsfólki í stjórn, ferða og skemmtinefnd, sem er reiðubúið til að gera sitt allra besta í okkar þágu.
Eftir hefðbundin fund var slegið á létta strengi, borðaður góður matur, sungið trallað og spilað. Á boðstólnum að þessu sinni var djúpsteiktur kalkúnn með öllu tilheyrandi og er óhætt að segja að það hafi vakið mikla lukku fundargesta.
Ferðafundurinn þar sem stóra leyndarmálið varðandi ferðir sumarsins er afhjúpað, verður haldin laugardaginn 30. apríl 2022 kl. 14.00 í Fólkvangi á Kjalarnesi. Endilega takið þann dag frá.
Við ætlum að brydda upp á þeirri nýjung að bjóða upp á stutta kynningu á bílatryggingum, fyrst og fremst upplýsingar sem koma húsbílaeigendum að gagni.
Eins verður skerpt á skyndihjálpar kunnáttu fundargesta, með sérstakri áherslu á hjartastuðtækið sem ávalt er með í ferðum okkar.
Það veitir ekki af því að skoða hvað er nýtt í skyndihjálp, það að kunna réttu aðferðina getur hæglega bjargað mannslífi.
Eins efast ég ekki um að sá aðili sem kemur frá tryggingafélagi getur frætt okkur og svarað þeim spurningum sem upp kunna að koma.
Kaffi og kleinur í boði félagsins að fundi loknum.
En við erum sem sagt byrjuð formlega að starfa. Það verður því miður að segjast eins og er að auglýsinga söfnun hefur oft gengið betur. Það er eins og fyrirtæki haldi að sér höndum eftir ládeyðu undanfarinna ára.
Það myndi sannarlega muna um það ef þú félagi góður vissir um eða hefðir samband við fyrirtæki sem þér dettur í hug að gæti viljað auglýsa hjá okkur.
Ég tek á móti tillögum eða staðfestingum á husbill@husbill.is
Allt telur í þessum efnum.
Fyrir hönd stjórnar og nefnda.
Kær kveðja.
Elín Fanndal.
Formaður.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *