Af skoðunardeginum 24. apríl hjá Frumherja!

Á föstudeginum 23. apríl mættu strax nokkrir bílar á planið hjá Frumherja á Hesthálsi, tilbúnir í skoðunina daginn eftir. Reyndar þurftu ekki allir að láta skoða en vildu samt koma og fylgjast með og hitta félagana. Þetta voru 7-8 bílar og lögðum við baka til við skoðunarstöðina, nóg pláss og við vorum alveg laus við alla umferð. Nóg er plássið þarna.Laugardagurinn rann  upp, sól var úti en frekar kalt, ekta gluggaveður. Bílarnir byrjuðu að streyma að uppúr kl. hálf níu um morguninn og komu svo þétt eftir það.

Frumherja fólk var tilbúið með kaffi og nýbökuð vínarbrauð sem við öll gerðum góð skil og  svo upp úr klukkan hálf  ellefu þá var allt  gert tilbúið fyrir pulsurnar og  Frumherja fólk grillaði af miklum móð og stjanaði þvílíkt við okkur, við gátum verið inni og munaði það miklu því það var svo ansi kalt úti.

Hljóðfæraleikararnir okkar í félaginu komu svo einn af öðrum og var komin myndarleg hljómsveit sem spilaði og allir tóku undir í söng, það voru harmonikkur, gítar og sög, ég vil þakka spilurunum kærlega fyrir þeirra þátt í að gera þennan dag svona skemmtilegan.

Félagar góðir, ég tók eftir því hvað þið öll voruð sæl að hittast  enda langt um liðið síðan margir hverjir hafa sést, og það var ánægjulegt að sjá hvað margir komu sem þurftu ekki að láta skoða bílana, bara til að sýna sig og sjá aðra, hafið þökk fyrir.

Það voru 69 bílar skoðaðir þennan dag.

Frumherjamenn voru afskaplega ánægðir með að fá okkur og Karl sviðsstjóri ökutækjasviðs  og Hrafnhildur,  sem ég hafði mest samskipti við fyrir skoðunardaginn voru þarna allan tímann og spjölluðu við okkar fólk, fyrir utan allt hitt Frumherjafólkið og það var pása hjá skoðunarmönnunum þegar Steini Sævar spilaði á sögina, þau höfðu á orði hvað þetta væri frábærir hljómlistamenn sem væru í félaginu, og við getum sagt með stolti,  já,  þeir eru frábærir og við eigum marga fleiri svona  í félaginu.

Þeir sem ekki komust á skoðunardaginn, munið eftir tilboðinu frá Frumherja en það gildir til 1. júlí n.k. um allt land,  á hvaða skoðunarstöð Frumherja sem er.

Við viljum þakka starfsfólki Frumherja kærlega fyrir góðan dag, og hvað þau tóku vel á móti okkur.

Kæru félagar, hafið þið þökk fyrir ykkar þátt, góða samheldni og léttleika.

Hittumst svo hress í 1. ferð sumarsins að Félagsgarði í Kjós 7.-9.maí n.k.

Með húsbílakveðju
Soffía G. Ólafsdóttir, formaður.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *