Evrópuferð 696 og 165

  

Ágústa B 696 on Mán Mar 24 2008, 06:18

EVRÓPUFERÐIN.

Formáli.
Einn góðan vetrardag árið 2006 vorum við systur á spjallinu eins og við gerum oftast á hverjum degi. Samtalið leiddist út í að tala um utanlandsferðir. Anna systir og Jón maður hennar voru að pæla í utan reisu næsta sumar en voru ekkert farin að hugsa um hvert eða hvenær. Ekki var ég með hugann mikið við þessar pælingar hennar vegna þess að við Guðni höfum ekki haft áhuga að fara til útlanda fram að þessu. Eftir að við systur töluðum oftar saman því meiri áhugi varð fyrir hjá mér að fara . Þegar hér var komið við sögu voru Nonni og Guðni settir inn í málið. Auðvitað varð múgsefjun og allir sammála að fara næsta sumar í húsbílaferð um Evrópu(vera bara grand á þessu). Við höfðum líka stór tilefni til að halda uppá þetta sumar, 45, 50, 2×60 ára afmæli og líka brúðkaupsferð sem Anna og Nonni vissu ekki um fyrr en eftir á.

Löngunin var að fara með okkar eigin bíla með Norrænu en eftir að hafa skoðað kostnaðinn og siglingatímann þá var miklu hagstæðara að hreinlega að leigja húsbíl úti og fljúga enda evran mjög lág miðað við í dag þegar þetta er skrifað..

Eftir miklar pælingar, leitir á netinu o.þ.h. vorum við komin með beinagrind af væntanlegi ferð og allir yfir spenntir nema kannski kallarnir(vildu helst fara til Grænlands í kulda heldur en að stikna í sólinni)

Fyrst af öllu þurftum við að athuga með húsbíl. Hvar ættum við að leigja hann, hversu stórann og það sem máli skiptir fyrir bílstjórana GPS tæki. Við Íslendingar erum svo aftanlega á merinni með að skipleggja fríin okkar að það hálfa væri hellingur. Við höldum bara að allt bíði eftir okkur þegar okkur þóknast og hana nú. Ekki aldeilist. Þegar hér er komið við sögu er kominn janúar. Við töldum það góður tími til að panta bílinn. Það var “hlegið” af okkur í póstunum frá leigunum. Evrópubúar skipuleggja fríin sín ár fram í tímann og þar af leiðandi engir bílar á lausu þann tíma sem við vildum! Nú voru við komin með í magann. Anna gafst ekki upp var í sambandi við eina leigu sem sendi okkur svo póst um lausan bíl á okkar tíma. Við himinlifandi yfir fréttunum þó að bíllinn væri ekki með tveimur tveggja manna rúmum eins og við vildum, heldur kojum og einu rúmi. Þetta breyttist svo seinna og fengum við draumabílinn á sama verði þó stærri væri. www.hymer-rent.de

Við Guðni áttum fría farmiða , svo hópurinn ákvað að fljúga til Billund , gista eina nótt hjá Bjarna og Bryndísi www.bbgisting.com og taka síðan lest til Hamborgar þar sem bíllinn biði okkar.

Eitt leiddi af öðru og ferðin var skipulögð í stórum dráttum . Ekki vildum við skipuleggja ferðina svo, að ekki væri hægt að hreyfa sig umfram skipuritið. Enda kom það sér vel eftir á þegar GPS og bílstjórar voru ekki sammála hvert fara skyldi og við þræddum þorp, hægi, vinstri. Meira um það seinna.

Loksins rann upp dagurinn 30.júní 2007…
 

30.júní laugardagur.

Með miklum spenningi var brunað á flugvöllinn með mjög nettar ferðatöskur í skottinu. Þessar sömu töskur komu svo heim eftir 3 vikur mjög stórar og pattaralegar!
Fórum í loftið um kl.16.10 .Flugið gekk vel og Bjarni var kominn til að sækja okkur.
Það var okkur mikilvægt því að við ætluðum ekki að taka bílaleigubíl á meðan við stoppuðum í Billund.

Bjarni og Bryndis reka fyrirmynda gistiheimili í Vendel nokkra km. frá Billund og mælum við eindregið með þeim. www.bbgisting.com

Rigning var í DK við komu okkar og lítill hiti. Sátum við að spjalli við þau hjónin og aðra gesti fram á kvöld .

1.júlí sunnudagur.
Eftir morgunmat var farið að spá í lestina til Hamborgar á mánudagsmorgninum. Lestin átti að fara kl.8.00 en miðasalan opnaði ekki fyrr en kl.10.00. Nú lágu Íslendingar í því. Auðvitað var allt lokað í Danaveldi á sunnudögum svo að við vorum orðnir strandaglópar strax á fyrsta degi. Bjarni ,þessi mikla hjálparhella sinna gesta, reddaði okkur bílaleigubíl og sóttum við hann upp á flugvöll. Allur sunnudagurinn fór því í að rúnta um sveitirnar í rólegheitum því að bíllinn var plús við væntanlegt ferðalag. Fórum við til Kolding, Vejle, Billund, Ringstad og fleiri staða. Mikið er Danmörk fallegt land. Húsin eru svo skemmtileg og allt svo eitthvað hreint.

2.júlí mánudagur.
Lögðum í’ann frá Vendel kl.10. Ferðin til Hamborgar gekk vel en með smá útúrdúrum. Kallarnir að læra betur inn á GPS tækið sem Nonni hafði fengið sér fyrir ferðina. Mikið er um tré og aftur tré í Þýskalandi. Mjög óspennandi útsýni fyrir okkur sem vön erum víðáttunni. Okkur var hugsað til ferðamanna heima sem tala allir um útsýnið allstaðar. Núna skildum við þá. Veðrið var mjög risjótt, yfirleitt grenjandi rigning. Okkur leist ekkert á blikuna. Við vorum ekki komin til Evrópu til að vera í rigningu og kulda. Kallarnir glottu bara þvi að ekki var hitinn að plaga þá þá stundina.

Bíllinn kom okkur þægilega á óvart. Sá bíll sem við leigðum upphaflega var seldur frá leigunni svo við fengum glænýjan HYMER keyrðan 53 km. Eftir við vorum búin að fara yfir allt í sambandi við bílinn var lagt af stað í þetta langþráða ferðalag.

Fyrsti náttstaður var nálægt Kiel. Tókum fyrsta kvöldinu með ró,gengum frá dótinu okkar og matvörunum sem við keyptum á leiðinni. Ekki fannst okkur spennandi að versla matvörur. Þekkjum ekki þessi merki og t.d. keyptum við mörgum sinnum óætt smjör á leiðinni vegna kunnáttuleysis á þýska tungu. Við vorum búin að tala okkur til um að vera dugleg að elda sjálf í bílnum en það enntist ekki lengi. Það var svo freistandi að fara bara út á næsta matsölustað. Okkur fannst þetta bara svo ódýrt og notarlegt og losnuðum líka við að rýna í allar hillur búðanna til að finna eitthvað kunnuglegt í matinn..

Þrumur og eldingar styttu okkur stundir um kvöldið og ausandi rigning. Hitinn fór þó upp í 24.5 gráður yfir daginn.

3.júlí þriðjudagur
Veðrið þennan morguninn var aðeins skárra en hina dagana. Við fórum af stað eftir morgunverkin og héldum til Bad Segeberg. Þessi borg er hreint og beint æðisleg. Litadýrðin í húsunum og öll blómin. Maður minn. Það eru einkenni í þessum bæjum, blóm undir hverjum glugga og ekki bara blóm heldur stofublómin okkar heima. Allt vex víst úti í útlöndum. Við heimsóttum Leðurblökusafn. Það var nokkuð merkilegt. Safnið er á þremur hæðumog bæði lifandi og dautt til sýnis..Við fórum líka að skoða salt/kalk námur. Mjög merkilegar námur ef við skildum þýsku! Að vísu renndi “gætinn” yfir þetta á bjagaðri ensku svo að við fengum aðeins að vita um frægðina.
Í þessum hellum átti að lifa bjöllur sem hvergi annarsstaðar í heiminum væru til. Auðvitað sáust engar bjöllur eins og leðurblökurnar sem áttu heima þarna líka
Í Þýskalandi er mjög erfitt að fá menn til að tala ensku. Við fengum aðeins að kynnast því.

Eftir söfnin vorum við á röltinu í bænum í rólegheitum, versluðum aðeins og skoðuðum mannlífið. Sólin var farin að láta sjá sig og við Anna farin að krossa putta fyrir sólbaðsveðri, mökum okkar til hryllings.

Á heimleiðinni dóluðum við okkur í gegnum nokkra bæi sem allir voru eins, múrsteinshús með rauðum þökum. Vantaði alla litadýrð í þau þorp. Sólin dugði ekki lengi, rigndi á okkur um kvöldið og við Anna í fýlu.

4.júlí miðvikudagur.
Hluti af beinagrindin á ferðinni okkar var sú að fara stóran hring frá Hamborg, Kiel, og þaðan til Hollands með viðkomu á nokkrum ferðamannstöðum. Ekki stóðst þetta hjá okkur sem gerð ekkert til. Við pössuðum okkur á að vera með nægan tíma fyrir eitthvað óvænt.

Planið var að skoða skipaskurðinn í Kiel en…í stuttu máli þá lentum við í vandræðum á leiðinni svo við heimsóttum alla bæi og þorp langt frá Kiel.Við vorum komin út á strönd þar sem ferjur ganga frá til norðurlandanna. Snérum heldur kindaleg til baka, 2ja tíma ferð varð af 10 tímum! Ekki tók betra við þegar átti að finna tjaldstæðið. Það var bara ekki til lengur og við orðin þreytt og pirruð. Þetta hafðist og fundum við stæði rétt hjá.

Við vorum komin á stað sem heitir Labou. Þessi staður er merkur fyrir kafbátinn
U 995 og stríðsminjasafn. Einnig er þarna mikill minnisvarði um fallnar stríðshetjur.

Mest allan daginn fengum við þurrt veður og sæmilega hlýtt en auðvitað rigndi á næturstaðnum, hvað annað. Hvenær fáum við Anna að spóka okkur á stuttbuxum?

5.júlí fimmtudagur.
Ekki var mikil sólin þennan morguninn, en hélst þó þurr. Veðrið spilar stórt hlutverk í svona ferð, allavega finnst okkur Önnu það. Til hvers að fara til útlanda og fá íslenskt veður? Drifum okkur að skoða þennan fræga kafbát U 995. Það var bara nokkuð skemmtilegt að skoða hann. Vistaverur áhafnarinnar voru ekki beysnar, allt svo þröngt og smá hólf fyrir hvern og einn fyrir persónulegar eigur.

Ekki fórum við að skoða safnið því að það var lokað þegar við komum að. Rúntuðum einnig um sveitina I Labou er mikil smábáta-og skútuhöfn. Flottir og stórir bátar lágu við festar hundruðum saman. Virkilega falleg sjón fyrir þá sem hafa áhuga fyrir svona fleyjum.

Komum snemma heim á tjaldstæðið til að setja í þvottavél. Allt til alls á öllum tjaldstæðunum í ferðinni sem við nýttum okkur oftast. Kvöldinu eytt með spilamennsku eins og mörg kvöld í ferðinni.

Á öllum tjaldstæðunum sem við gistum voru stæðunum lokað kl.10.00 á kvöldin. Okkur fannst þetta allt í lagi þangað til við lentum í að vilja vera lengur í einu þorpi vegna bæjarhátíðar, meira um það seinna.

6.júlí föstudagur
Lögðum af stað í grenjandi rigningu sem var orðin ansi þreytandi. Veðurspáin var ekki uppörvandi.. Núna var ætlunin að fara að skoða skipaskurðinn í Kiel á leiðinni til Amsterdam í Hollandi. Ef þessi skurður sem við horfðum á var rétti skurðurinn var bara ekkert varið í hann.

Við fórum lítið sem ekkert inn í stórborgirnar í ferðinni.vegna stærðarinnar á bílnum. Bílastæði þröng og oft slár fyrir innkeyrsluna hjá búðunum. Áberandi mörg bannmerki með húsbílum á.

Vegasjoppurnar við hraðbrautirnar eru kapituli útaf fyrir sig. Maturinn mjög góður og úrvalið á öllu matarkins eins og á bestu veitingahúsum á Fróni.
Á hraðbrautunum sem við fórum oft á, var gaman að fylgjast með umferðinni. Flutningabílar af öllum stærðum og flóran af hjólhýsum og húsbílum. Ekki sáum við eða hittum neina Íslendinga í ferðinni. Við settum alltaf upp íslenska fánann á náttstað og vöktum athygli út á hann.

Grenjandi rigning allan daginn og umferðateppur á leiðinni svo við gistum í Dorlingen vestan við Bremen.

Ekki fengum við Anna sólbað í dag

7.júlí laugardagur.
Vöknuðum snemma í ágætisveðri allavega þurru en skýjuðu. Kvöddum Þýskaland í bili og héldum til Hollands. Ferðin gekk vel, ökumenn og tölva voru sammála.
Lentum í Amsterdam kl.15.30 og fórum á æðislegt tjaldstæði nánast inn í miðri borg. www.camingzeeburg.nl.

Tjaldstæðið er á lítilli “eyju” þar sem öll þjónusta er til staðar, veitingahús, verslun, og allt fyrir hreinlætið á mannfólkinu. Tókum sporvagn niður í bæ og fórum út á Dam torgi. Allt svo flott, byggingar og styttur af stærstu gerð.
Keyptum okkur “passa” sem gildir í 24 tíma. Passinn veitir okkur bæði frían aðgang og afslætti inn á söfn, fljótabát og sporvagninn.

Rauða hverfið var svolítið spes. Við ekkert nema forvitnin en mikið er það ömurlegt að horfa upp á þessar fallegu ungu stelpur í gluggunum. Margt fólk á gangi um allan miðbæinn, flóra mannlífsins á einu bretti.

Röltum í rólegheitum langt fram á kvöld, södd og sæl eftir matarboð Önnu og Nonna af tilefni brúðkaupsafmælis þeirra 6.júlí.

8.júlí sunnudagur.
Æðislegt veður þegar við vöknuðum. Loksins var hægt að fara í hlýrabol og stuttbuxur. Eftir morgunverkin lögðum við aftur af stað í miðbæinn. Vorum búin að sjá kvöldinu áður að útsölur voru út um alla borg og við systur hressar með það.

Við byrjuðum að fara í vaxmyndasafnið. www.madametussauds.nl. Skemmtilegt að rölta um á milli fræga fólksins og láta mynda sig auðvitað. Í kjallaranum var óhugnanleg sýning sem við höfðum ekki áhuga fyrir að sjá en okkur fannst allt í lagi að skoða” sýningu” sem gerist á seglskipi. Ferðamenn skemmtu sér vel yfir viðbrögðum mínum á þeirri “sýningu” en ekki mér sem var með tárin í augunum á eftir.

Úr safninu fórum við í síkjabátinn. Skemmtileg 1 klst. sigling um alla borg. Þægilegir bátar og margt að skoða á leiðinni.

Svo kom að því, við fórum að versla. Innkaupin tóku drjúgan tíma en þrælskemmtileg. Drifum okkur svo heim enda orðin þreytt og slæpt í allri sólinni sem skein á okkur allan daginn. Fengum okkur að borða á veitingastaðnum á tjaldstæðinu og settumst svo við spil fram eftir kvöldi og slökuðum á eftir skemmtilegan dag. 

9.júlí mánudagur.
Þegar hér var komið vorum við komin í svolitla tímaþröng. Við ætlum að vera komin til Shönbuch héraðs rétt hjá Stuttgart þann 14.júlí og margir staðir á leiðinni sem við ætlum að gefa okkur góðan tíma í að skoða. Við vorum búin að áætla í kringum 300 km akstur á dag svo að við þyrftum að halda vel á spöðunum að komast yfir allt sem okkur langaði að gera.. Því var ákveðið að sleppa öðrum borgum í Hollandi og bruna í gegnum landið og skoða það mest á ferðinni. Við ætluðum að keyra gegnum Belgíu og þaðan Lux og svo Stuttgart. Belgía heillaði okkur ekki einhvernveginn í skipulaginu okkar og ætluðum að sleppa að skoða landið eitthvað náið. Það blundaði samt í okkur einn staður í Belgíu sem okkur fannst við verða að sjá. Við fórum og sáum sko ekki eftir því. Staðurinn er í Namur og heitir Han-sur-Lesse www.panoramio.com/photo/5536208

Rigning enn að gera okkur lífið leitt en við létum það ekki á okkur fá og borguðum fyrir 2 nætur á þessum fallega stað. Hér yrði margt að skoða. Fórum á bæjarrölt í rigningunni (þetta er sagan um rigninguna) og tékkuðum á hvað hægt væri að gera fyrir utan hellana. Kom upp úr dúrnum að það væri ýmislegt hægt að gera, t.d. bílferð í næsta dal sem er dýragarður.
10.júlí þriðjudagur.
Vöknuðum í skýjuðu veðri með smá sólargeislum. Skítakuldi um 11 gráður.
Drifum okkur af stað til að kaupa passa. Við völdum að fara með bekkjabílnum í útsýnissferð um dýragarðinn. Það var ekki mjög viturlegt því öll rigning heimsins féll niður á okkur í þessari ferð. Við urðum rennblaut en Guðni sínu verst því að hann sat þannig í bílnum. Þrumurnar og eldingarnar skemmtu okkur líka svo að við vorum búin að fá nóg.. Samt var nú gaman að sjá dýrin, þó að þau voru öll í skjóli langt frá bílnum, því að ég hef aldrei séð sum dýrin með eigin augum. Ég átti eftir að sjá seinna allt í meiri fókus.

Þegar ferðinni var lokið flýttum við okkur heim í bíl, því ekki vildum við veikjast af þessu volki. Kúrðum okkur undir sæng í smá tíma og héldum síðan í hellana.

Han hellarnir eru eldgamlir dropasteinshellar. Við fórum með 100 ára gamalli lest gegnum áðurnefndan dal og lengst upp á fjall. Þar tók á móti okkur “gæt”sem gekk með okkur 2 km.þvers og kruss, upp og niður og þar að auki 437 tröppur. Hellirinn er á mörgum hæðum og mikið sjónarspil enda ljósakastarar á fallegustu stöðunum. Eftir gönguna sem var mjög auðveld settumst við niður í stórri hvelfingu og horfðum á mikið “ljósasjóf”og hlustuðum á dúndrandi tónlist. Mjög flott. Síðustu 200 metrana vorum við flutt á báti gegnum hellismunann. Á endastöðinni biðu okkar myndir sem teknar voru af okkur í upphafi ferðar sem við svo keyptum þó rándýrar væru.

Um kvöldið fórum við út að borða eins og venjulega. Allt svo ódýrt í útlöndum..

Tíu dagar liðnir af ferðinni og enginn þurr. Hitinn ekkert spes.

11.júlí miðvikudagur.
Veðrið við það sama í morgunsárið. Kvöddum Belgíu sem kom okkur þægilega á óvart, sérstaklega Han La Hasse sem var svo snyrtilegur og fallegur, ekta ferðamannabær. Kirkjan þeirra falleg og allt umhverfið bara.

Héldum til Frakklands. Landslagið allt annað en t.d. í Þýskalandi. Hér sér maður landslag ekki skóga um allar trissur. Tjaldstæðið sem við vorum búin að velja var ekkert spes svo að við verðum bara eina nótt. Algjör svefnbær og ekkert líf. Við fórum því snemma í háttinn.

12.júlí fimmtudagur.
Vöknuðum í ágætisveðri, borðuðum og drifum okkur svo af stað. Lá leið okkar til Alcasee héraðs, mesta vínhéraðs á þessum slóðum ef ekki í Frakklandi. Keyrðum á leiðinni kringum stórt vatn Geradner. Trén voru alveg upp á topp í hlíðum dalsins, ekki bara kjarr eins og heima heldur fullvaxta tré. Margir veitingastaðir, hótel, bátaleigur og strendur við vatnið. Ekki gátum við spókað okkur mikið í suddanum.

Stuttu áður en við komum að vatninu, fórum við á safn sem sýndi módel af gömlum byggingum.. Voru þau úti í stórum garði www.parc-miniature.com

Tjaldstæðið var gott en sturtur hefðu mátt vera betri. Storkurinn spókaði sig inn á milli gesta og sníkti brauðbita. Logo héraðsins er einmitt storkur svo að í öllum búðum var allt með storkum, mjög spennandi eða þannig. Veðrið varð alltaf betra og betra og undir kvöld vorum við orðin “fáklædd” á röltinu

13.júlí föstudagur.

Húrra, húrra, húrra. SÓL!

Það var æðislegt að vakna og geta klætt sig í stuttbuxurnar. Ég vaknaði kl.7.00 til að setja í þvottavél og fara í sturtu.

Við vorum komin til Ribeauville.

Allan morguninn sleiktum við sólina og hitnn bara 26,9 gráður. Í hádeginu fórum við til að borða og skoða bæjarlífið. Mjög svo fallegur bær, iðandi af mannlífi. Göturnar steini lagðar og blóm út um allt. Litagleðin allsráðandi á húsunum.

Tókum útsýnislest sem fór hingað og þangað um þorpið. Hitinn fór stighækkandi okkur systu til mikillar gleði. Seinnipartinn fórum við í næsta þorp sem heitir Riquewihr sem er líka mjög fallegt og skemmtilegt. Fórum líka með útsýnislest, en hún fór með okkur upp í hæðirnar svo útsýnið var flott, yfir mörg þorp sem liggja nálægt hvort öðru. Í þessum bæ átti að vera hátíð um kvöldið en við fengum forsmekkinn af þeim hátíðarhöldum meðan við stoppuðum við. Við urðum að vera komin inn á tjaldstæðið kl.22:00, svo að við misstum af mesta fjörinu.

14.júlí laugardagur.
Æðislegt að vakna í 25 gráðum, borða úti og njóta blíðunnar.

Lögðum svo enn af stað og núna til Schönbuch héraðs, stutt frá Stuttgart. Þar býr Magga dóttir Nonna með fjölskyldu sinni. Sonur og tengdadóttir Nonna voru komin til Möggu og ætlum við að ferðast smá saman í kringum Stuttgart. Ferðin gekk ljómandi og fórum við útúrdúra hér og þar á leiðinni.

Við vorum drifin beint í Mollið við komuna á 9manna bíl sem Tim tengdasonur var búinn að leigja svo við gætum verið öll saman. Ekki líkaði okkur systur ílla í kaupæðinu og voru margir pokarnir bornir út í bíl.

Um kvöldið var farið á grískt veitingahús og setið þar í vellystingum langt fram á kvöld.

15.júlí sunnudagur.
Vöknuðum í 32 stiga hita og alveg í steik. Þetta var kannski ekki alveg það sem við vildum .Magga var búin að gera fínan morgunverð fyrir gesti sína og þvotturinn beið saman brotinn inn í stofu. Ekki slæmt.

Svartiskógur var næst á dagsskrá. Mér fannst þetta ekkert voða tilkomumikið en fallegt samt. Sáum heimsins stærstu gauksklukku og fleira ferðamannavænt. Minjagripabúðirnar með himinhá verð svo lítið var keypt á þessum slóðum. Enduðum í þorpi stutt frá sem ég man ekki hvað heitir. Hitinn var alveg að kæfa okkur enda kominn upp í 40 gráður. Endalaus drykkja á okkur (ekki misskilja, bara gos og vatn) dugði ekki til því það fór jafnharðan út aftur.

Enduðum daginn á kínverskum stað í næsta þorpi við Möggu og Tim.

16.júlí mánudagur.
Þennan dag fórum við öll til Rothenburg. Við fórum á húsbílnum því leiðir skilja eftir daginn.

Þessi borg er inn römmuð af háum múrum allan hringinn þ.e gamli miðbærinn. Hægt að ganga ofaná múrnum en við létum það ógert. Hitinn mjög mikill yfir 40 stig svo að við Anna vorum farnar að leita í skuggann meira að segja. Þetta er ekta ferðamannabær og verðin eftir því. Við dóluðum okkur þarna allan daginn og vorum fegin að komast í kuldann í bílnum.

Hérna kvöddum við börn Nonna og héldum af stað áleiðis til Hamborgar. Ferðin farin að styttast í annan endann.

Næturgistingin var óákveðin svo við létum GPS finna handa okkur gistingu. Því miður voru engin stæði innan 300 km radiusar. Guðni var ekki að tvínóna við hlutina, sá konu við slátt og stökk til hennar. Við ein stór augu því maðurinn er alveg mállaus á allar tungur nema íslensku. Þetta yrði fróðlegt. Minn maður kom nú heldur hróðugur til baka með kort sem konan var búin að merkja inn á stað sem við gætum gist á um nóttina. Guðni hefur ekki enn sagt mér hvað þeim fór á milli þó liðnir séu margir mánuðir síðan ferðin var farin.

Næturstaðurinn reyndist vera bílastæði inn í miðjum bænum. Þau eru ókeypis en bílarnir verða að vera farnir fyrir kl 8:oo næsta morgun. Okkur fannst svolítið óöryggi að vera svona óvarin fyrir gestum og gangandi og sváfum því misvel um nóttina.

17. júlí þriðjudagur.
Eftir góðan svefn eða órólegan eftir því hver í hlut átti var lagt af stað. Stilltum GPS á Hamborg. Nú fer að styttast allverulega ferðalagið okkar. Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig að undanskildum teppum hér og þar á hraðbrautunum. Aginn í umferðinni er all mikill og mættu íslendingar taka þjóðverja sér til fyrirmyndar með það. Allt gekk eins og smurt, ef þú keyrir ekki eins og lög segja ertu í vondum málum. Fjöldi húsbíla og hjólhýsa eykst með degi hverjum því aðal sumarfrístími evrópubúa er að hefjast.

Til Hamborgar komum við um miðjan dag. Stæðið er inn í borginni og er með öllum þægindum. www.campingplatz-hamburg.de

Við tökum það rólega því morgundagurinn verður labb og endalaust labb.

18.júlí miðvikudagur.
Byrjuðum daginn að kaupa okkur passa í neðanjarðalestina og strætó. Við þurfum að nota bæði farartækin til að komast í bæinn. Þetta er ekkert mál því um borð eru skilti sem nefna allar stoppistöðvar og svo er það líka kallað upp. Við byrjuðum að fara í dýragarðinn. Sérstök upplifun að horfa á og fylgjast með dýrunum. Engir rimlar sem halda dýrum heldur steyptir veggir og girðingar. www.hagenbeckde

Svakalega stór garður og flottur. Eftir garðinn skelltum við okkur í bæinn. Fengum okkur far með útsýnisbáti og sigldum með honum á “polli” þeirra Hamborgabúa. Ekki fannst mér þetta peninganna virði. Alltaf hugsað til Amsterdam og Hamborg vann ekki þær hugsanir.

Borgin Hamborg er “ný” borg miðað við aðrar borgir í Þýskalandi. Flest húsin voru endurbyggð eftir stríð í sinni upprunalegu mynd,svo gamli bragurinn er til staðar samt sem áður.

Á aðaltorginu var svaka stór kirkja sem mig langaði að sjá. Við höfðum ekkert farið inn í neinar í ferðinni svo að nú átti að bæta úr því. Nei takk, enginn Guð í þessari kirkju. Listasafn og bar í “skipinu” ekki mjög kristilegt. Röltum smávegis um göturnar og héldum svo heim á leið. Hellirigndi á leiðinni og nokkur vindur því granninn okkar á stæðinu bjargaði markísunni okkar frá foki.

19.júlí fimmtudagur.
Fínt veður í dag , hiti um 25 gráður og sól. Fórum á bæjarrölt ekki öllum til ánægju. Síðasti heili dagurinn okkar í Þýskalandi.

Ekki laust við að þreyta væri komin í mannskapinn.. Þetta ferðalag búið að vera hreint ævintýri fyrir okkur öll. Búin að vera í svona miklu nábýli í næstum 3 vikur og allt gengið eins og í sögu. Getum alveg mælt með svona ferðalagi fyrir tvenn pör á einum bíl ef fólki er vel til vina. Höfðum það fyrirkomulag á fjármálunum að vera með “hússjóð” sem var notaður í allt sameiginlegt þ.e. eldsneyti, mat, tjaldstæði o.þ.h.

Byrjuðum að pakka niður og gera klárt fyrir þrifin á bílnum morguninn eftir.
20.júlí föstudagur.
Vöknuðum snemma til að þrífa bílinn að innan. Við máttum ekki þrífa bílinn að utan sögðu þeir, enda þurfti þess ekki. Bíllinn aldrei óhreinn þó að við værum búin að þvælast rúma 3000 km. Lentum í þýskri nákvæmni við skilin á bílnum sem skiluðu sér í “sekt” fyrir trjákvoðu renndur efst á bílnum. Við hoppandi vitlaus yfir þessu lítilræði sem fór af við minnstu snertingu. Þýðir ekki að deila við dómarann, settumst upp í taxa sem flutti okkur upp á flugvöll þar sem bílaleigubíll beið okkar.
Settum stefnuna á Billund en heimsóttum ýmsa staði á leið okkar þangað. Flensborg var einn af þeim. Við Anna ekki búnar að fá nægju okkar af búðum svo við leituðum af veiðibúð. Fundum hana og við öll eins og hrægammar að tína til allskonar veiðidót. Gerðum mjög góð kaup og hugurinn kominn til vatnanna heima á Íslandi.
Gaman að vera komin aftur til Bjarna og Bryndísar. Mest af öllu hlakkaði ég til að lesa íslensk blöð og heyra fréttir að heiman. Skipulögðum allt aftur í töskunum okkar til að hafa meira pláss og tókum kvöldið í rólegheitum.

21.júlí laugardagur.
Miklu betra veður síðasta daginn í ferðinni heldur þann fyrsta.
Við ætluðum að rúnta svolítið um, fara á stærsta útimarkað í Evrópu og gera eitthvað skemmtilegt áður en við mættum upp á völl til að taka flugið heim. Þegar Bjarni heyrði þetta þá spurði hann hvort við ætluðum ekki í Lego-land. Við höfðum ekki ætlað okkur það enda fannst mér vanta börn til að vera með í svoleiðis garði. Bjarni skoraði á okkur að fara og á endanum seldi hann okkur miða. Við lögðum í´ann og byrjuðum á útimarkaðinum. Hann var eins og stórt Kolaport. Við gátum þó á okkur blómum bætt og keyptum meiri veiðivörur. Þá var það Lego-land. Ég þurfti engin börn til að spóka mig þar inni. Rosalega gaman að ganga þarna um og skoða. Heill dagur mundi ekki duga til að skoða allt vel, við höfðum ekki svo mikinn tíma því að áttum að mæta upp á völl.

Bjarni hringir í okkur óvænt og tilkynnir okkur 9 tíma seinkun á fluginu. Við ekki kát en tékkuðum okkur inn til að fá að vita hvað yrði gert fyrir okkur. Engar áhyggjur, séð yrði um okkur í mat og gistingu ef við yrðum komin inn kl..21.00.
Í stuttu máli var ekkert gert. Við máttum dúsa á þunnum dýnum alla nóttina með öskrandi og drukknum dönskum unglingum að fara í útskrifarferð til sólarlanda Maturinn var samloka og kók. Þegar tíminn var að koma sem við áttum að fara í loftið þá varð meiri seinkun og við svo loksins í loftið eftir samtals 12 tíma seinkun. Mikið var gott að koma heim en þessar 3 vikur voru frábærar og munu alltaf vera í minningunni.

Eftirmáli..
Þegar ég skrifa þetta niður með stuðningi úr dagbókinni minni þá streyma fram minningarnar. Það er langur vegur frá að ég hafi minnst á allt sem við upplifðum. Fjöldi bæja og þorpa eru ekki nefnd með nafni og margt annað sem við sáum og upplifðum. Vonandi hefur þessi frásögn gefið ykkur þor til að fara í svona ferð. Við vorum alveg reynslulaus en létum okkur hafa það og sjáum ekki eftir því.
Við systur erum farnar að spjalla um Norðurlöndin……

 

Morgunblaðið 2001

1. apríl 2001 | Ferðalög | 599 orð | 3 myndir

Félag húsbílaeigenda með níu skipulagðar ferðir á árinu

Hundrað húsbílar í halarófu

Þegar Félag húsbílaeigenda stendur fyrir ferðum út á land er víða stoppað til að  skoða það sem fyrir augu ber. Hér eru félagarnir á leið til Akureyrar
Þegar Félag húsbílaeigenda stendur fyrir ferðum út á land er víða stoppað til að skoða það sem fyrir augu ber. Hér eru félagarnir á leið til Akureyrar
Stóra sumarferðin hefst  í Borgarnesi á grillveislu. Hér eru þau Kolbrún, Símon, Olga, Hafsteinn, Sveinn og Örn við grillið
Dansinn stiginn á Siglufirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er sérstök stemmning sem myndast þegar eigendur hundrað húsbíla aka saman um landið. Erna Margrét Kristjánsdóttir segir að á leiðinni sé lesið úr ferðahandbókum í gegnum talstöð um það sem fyrir augu ber.
FYRIR um átján árum tóku nokkrir eigendur húsbíla sig saman og stofnuðu Félag húsbílaeigenda. Í dag eru félgsmenn um 600 talsins og eitt af því sem þeir gera saman er að ferðast um landið. Erna Margrét Kristjánsdóttir, formaður Félags húsbílaeigenda, segir að í sumar verði farið í níu ferðir út á land.

„Í vor ætlum við í fyrsta sinn að fara í gróðursetningarferð og þá liggur leiðin á Þórisstaði í Svínadal. Um hvítasunnuhelgina tökum við stefnuna á Árnes í Þjórsárdal og 15.-17. júní förum við í skoðunarferð um Reykjanes. Á hverju ári förum við svo í eina stóra ferð. Í ár verður farið í hana dagana 21.-29. júlí og þá liggur leiðin á Vestfirði.“ Erna segir að húsbílaeigendur ætli þá að hittast í Borgarnesi og fara þaðan á Borðeyri, til Hólmavíkur, í Kaldalón, á Reykjanes og fara síðan með báti frá Ísafirði, jafnvel á Hornstrandir. Þá verður ekið til Bolungarvíkur, farið í Skálavík en lokahófið verður síðan haldið á Ísafirði. „Í fyrra dekkuðum við borð fyrir 230 manns í lokahófinu okkar en það var ekki nóg svo það er næg þátttaka enda yfir hundrað bílar sem fara í stóru ferðirnar,“ segir hún.

 

Mikið spilað og sungið í ferðunum

En verða ekki eigendur fólksbíla pirraðir þegar hundrað húsbílar aka saman um vegi landsins og þeir geta ekki komist fram úr?

 

„Við erum með talstöðvakerfi í bílunum og tölum saman með þeim hætti. Sá sem er aftastur í röðinni lætur vita ef þarf að hleypa bílum framúr svo það hafa engin vandamál komið upp í því sambandi. Við notum talstöðvakerfið líka til að fræðast um það sem fyrir augu ber á leiðinni. Sigríður Arna Arnþórsdóttir, fyrrverandi formaður félagsins, hefur séð um leiðsögn og lesið úr ferðahandbókum á leiðinni.“

Hvernig eyðið þið svo tímanum þegar þið eruð ekki að keyra?

„Við erum svo heppin að hafa nokkra góða harmonikuspilara í félaginu og þeir eru viljugir að spila. Þá leika félagsmenn líka á gítar og munnhörpu svo við syngjum og spilum og skemmtum okkur vel. Við erum sjö í stjórn félagsins og síðan erum við með skemmtinefnd og ferðanefnd og allir hjálpast að við að undirbúa ferðirnar sem best og þá starfsemi sem við erum með.“

 

Félagsmenn á öllum aldri

Á hvaða aldri eru félagsmenn?

 

„Þeir eru á öllum aldri, yngstu félagsmennirnir eru um tvítugt og síðan eru þeir upp í áttrætt. Það er líka mikið um börn í ferðunum okkar.“

Erna segir að á veturna hittist fólk líka, 4-5 sinnum er opið hús og nýlega var farið í skemmtilega óvissuferð. „Þá fórum við í Gvendarbrunna, skoðuðum málverkasýningu Sólveigar Eggerz á Hrafnistu í Hafnarfirði og fórum í línudans í Dalsskóla hjá dansskóla Sigurðar Hákonarsonar. Í lokin borðuðum við saman, sungum og dönsuðum fram yfir miðnætti.“

Hefur félagsmönnum fjölgað undanfarin ár?

„Þeim er alltaf að fjölga og um síðustu helgi vorum við með kynningu á starfsemi okkar á Garðatorgi. Þá fengum við tíu nýja félagsmenn.“

Eru það svipaðir húsbílar sem fólk er á?

„Það er mikil breidd í húsbílunum. Unga fólkið byrjar oft á því að kaupa sér sendibíl og innrétta og svo eru líka til mjög flottir húsbílar með svítum. Þá eru Benz-húsbílar mjög vinsælir hér á landi.“

Þegar Erna er spurð hvort það sé dýrt að eiga og reka húsbíl segir hún að það sé að minnsta kosti ódýrara en að eiga sumarbústað og þar að auki geti fólk ferðast um allt á húsbílum. Það er algengt að fólk ferðist til útlanda á húsbílum og í sumar ætla t.d. fimmtán húsbílaeigendur að fara saman með Norrænu til Noregs og keyra til Ítalíu.

Það hefur færst í vöxt að fólk ferðist líka á veturna með þessum hætti, fari í helgarferðir, á skíði og svo framvegis.“