Kæru félagar,
Verið velkominn á þennan aðalfund Félags húsbílaeigenda þann 29 október 2022.
Við skulum hefja fund með því að rísa úr sætum og minnast látinna félaga.
Ef við lítum yfir farin veg þessa árs hefur starfsemi okkar verið með miklum ágætum.
Við byrjuðum að venju í Fólkvangi þar sem fjölmennt var á ferðafund okkar. Þar var dagskrá ferðanefndar kynnt og í þetta sinn skyldi horft til suðurlands í allri sinni dýrð. Það reyndist svo farsælt val hjá nefndinni í ljósi þess að stærsti hluti félaga býr á suðvestur horninu. Það varð eins og þið vitið gríðaleg hækkun á olíuverði og á einnig á flestum tjaldstæðum. Félagið nýtur þó góðra kjara á mörgum þeirra og er það vel. Á fundinn mættu svo fulltrúar Björgunnarsveitar Kjalnesinga sem fóru yfir skyndihjálp með áherslu á hvernig nota skal hjartastuðtæki. Þar mættu einnig fulltúar frá Sjóvá sem kynntu fyrir félögum tryggingar á húsbílum og svöruðu spurningum úr sal.
Fyrsta ferðin er orðin að hefð, sem er ágætt við erum það mörg að það er gott að eiga einhverja vísa staði sem passa okkar fjölda á hverju ferðaári. Það eru t.d Vogar á Vatnsleysuströnd, Borg í Grímsnesi, Vatnsholt, Þóristaðir og Þykkvabær.
Við sem sagt byrjuðum í Vogum og þar var fínasta mæting sem gaf tóninn fyrir gott ferða ár hjá okkur. Mikill samhugur var að venju á meðal félaga og ungmennafélags andinn eitthvað sem unga fólkið okkar þekkir varla lengur, ríkti strax á meðal okkar. Árni Björns og Ágústa Överby af sínum einstaka höfðingskap, opnuðu sitt glæsilega heimili fyrir þeim félögum sem tóku þátt í göngunni með Hafdís Brands. Þar var boðið upp á ilmandi kaffi, kleinur og dýrindis flatkökur úr heimabyggð, smurðar með hangikjöti. Þetta höfðu þau undirbúið með sinni mögnuðu skemmtinefnd daginn áður.
Næst var það Hvítasunnuferðin í Þykkvabæ. Aftur mjög góð mæting og fínasta stemning, veislukaffið heppnaðist ljómandi vel, hnallþórur og smurðar tertur runnu ljúflega ofan í gesti. Ég vil þakka félögum fyrir að taka þátt í frágangi með stjórn og nefndum og einnig gengu allir vel frá eftir sig. Jói töframaður stóð sína plikt og skemmti bæði börnum og fullorðnum af sinni alkunnu snilld.
Þá lukkaðist ballið líka ljómandi vel og má segja að fólk hafi verið í bana stuði þar.
Það hefur komið til tals að hætta að auglýsa Hvítasunnuferðina sem fjölskylduferð svo að allir sem hafa aldur geti nú komið á ballið. Þá myndum við auglýsa aðra ferð sem slíka í staðinn. Td Borg í Grímsnesi. Kannski ættum við að ræða það félagar góðir, undir önnur mál hér á eftir. Ég hvet ykkur til að setja fram ykkar skoðun á því.
Borg í Grímsnesi var næsti áfangastaður, þar var vel tekið á móti félögum að venju, flott mæting og fínasta veður. Staðarhaldari bauð upp á útitónleika sem fólk kunni afar vel að meta.
Stóraferðin um Suðurland tókst að mínu mati frábærlega vel, við hófum hana í Vatnsholti og enduðum á Hvolsvelli. Við í stjórn tókum upp þráðinn frá því í fyrra og nú buðum upp á tvær rútuferðir í ferðinni.
Sú fyrri var skoðunnarferð um Þjórsárdal, sú ferð kom mér mjög á óvart og situr í minningunni sem ein af betri ferðum sem ég hef upplifað. Það að aka upp að háa fossi, fara ofan í Paradísargjá og aka að Stöng var alveg magnað, einhver sagði að Paradísargjá væri fallegast staður á Íslandi og get ég vel tekið undir það. Þá bauð félagið einnig upp á rútuferðir í hellana á Ægissíðu sem gáfust mjög vel. Það er von okkar, að í framtíðinni getum við áfram fundið einhverja afþreyingu sem brýtur svona skemmtilega upp stóruferð félagsins. Takk Erla fyrir þessa hugmynd þína í byrjun. .
Pálínuboðið í Árnesi sló held ég öll fyrri metnaðar met félaga, þvílíkar kræsingar sem voru þar á langborðinu og ekki spillti veðrið heldur.
Við enduðum svo ferðina eins og áður sagði á Hvolsvelli með glæsilegu lokahófi og hörku balli. Mig langar að minnast aðeins á Matráðinn hana Ástu og hennar fylgdarlið, Ásta er snilldar kokkur eins og hefur sannast hjá okkur, og hún er líka einstök kona í öllum samskiptum. Ég vona að við eigum eftir að njóta krafta hennar áfram í framtíðinni. Ekkert er of mikið mál fyrir Ástu og hennar starfsfólk.
Eftir stóruferð var næst farið að Snorrastöðum á Mýrum, við hjónin vorum þar fjarri góðu gamni af persónulegum ástæðum. En við sáum myndir og fengum fregnir af ferðinni og mikilli ánægju með hana, mikið sungið og spilað, þar var í framlínu með nikkuna eins og ótal oft áður hann Siggi okkar Hannesar og kunnum við honum ómældar þakkir fyrir, fólk sló hring um hann, söng hástöfum og dansaði. Félagið bauð upp á kjötsúpu og þar var líka óvænt veisla í boði tveggja afmælisbarna, þær skvísur, Anna Hálfdánar, og Hrafnhildur Ósk Beck ákváðu að halda sameiginlega upp á sextugsafmæli sín. Frábært framtak hjá þessum flottu konum. Mikil almenn gleði með þessa ferð hjá félögum.
Þóristaðir áttu svo næsta leik hjá þeim sem þangað mættu. Glampandi sól og blíðan með eindæmum. Fólk safnaðist saman í þjónustuhúsinu á föstudagskvöldinu og söng með undirspili Sigga Hannesar og svo mætti Daði Þór með gítarinn á laugardagskvöldið. Mikil stemning skapaðist bæði kvöldin sem lauk þannig að enn sungu allir í hringdansi í í kringum spilarana. Fólk stundaði útileiki undir brakandi sólinni og allir nutu sín sem einn. Aftur svignuðu borð undan kræsingum í glæsilegu Pálínuboði, nú var tilefnið 39 ára afmæli félagsins og einnig áttu þrír félagar afmæli þennan dag. Það hefur verið mikil ánægja og sérlega metnaðarfull þátttaka í þessum boðum í sumar. Við skulum endilega halda því áfram, þetta eru svo notalegar og skemmtilegar samverustundir.
Þá á bara eftir að minnast á lokaferð okkar og árshátíð sem að þessu sinni var haldin í Félagslundi í Flóa. Glæsileg mæting eða alls 222 félagar, sem mættu þangað og nutu veðurblíðu og góðs atlætis. Stjórnin ákvað að kosta til veislustjóra og það má sannarlega segja að hann hafi slegið í gegn. Jóhannes Kristjánsson fór alveg á kostum og salurinn lá í hlátursköstum. Maturinn hennar Ástu matráðs sló í gegn að venju og allir voru mjög ánægðir með flottan endi á þessu ferðasumri okkar.
Það hefur verið talsverð fjölgun nýrra félaga þetta árið og er það mikið gleðiefni. Ekki gleður það okkur minna hversu mörg þeirra hafa verið dugleg að ferðast með okkur líka.
40 ára afmælisundirbúningur er í fullum gangi og miðar mjög vel. Hátíðin verður haldin í Íþróttahúsinu í Garði þann 26 ágúst 2023.
Afmælisritið verður bæði gefið út á prenti og á netinu.
Ég vil færa enn á ný ómældar þakkir til allra þeirra sem hafa unnið í þágu félagsins. Stjórnin okkar, ferðanefndin okkar, skemmtinefndin okkar, Hafdís Brands fyrir allar gönguferðirnar, allir spilaranir okkar og Elínbjörgu Magnúsdóttur fyrir að vera alltaf tilbúin að stýra fundum okkar.
Önnur mál:
Víkjum nú að heiðursfélögum Félags húsbílaeigenda árið 2022.
Þau eru fjögur og hafa verið í félaginu í langan tíma og verið afar dugleg að ferðast með okkur.
Það þekkja langflestir þann sem ég get um fyrst, hann er sannkallaður drauma félagi, alltaf brosandi, kátur og tilbúin að þenja nikkuna við öll tækifæri sem gefast. Þau eru orðin óteljandi skiptin sem hann hefur búið til söng og dans stemningu og slær ekki enn slöku við þegar kemur að því að búa til góðar minningar.
Sigurður Hannessson nr 125.
Við heiðrum að sjálfsögðu líka konuna í lífi Sigga hana Rúnu, án hennar væri hann ekki sá maður sem hann er í dag. Rúna hefur mætt ásamt Sigga í flestar ferðir okkar og beinlínis geislar hvar sem hún mætir. Þau hjón eru afar samrýmd og á milli þeirra er ást, hlýa og virðing sem einkennir góð sambönd. Án Rúnu hefðum við ekki fengið að njóta allra skemmtilegu söng stundana með Sigga öll þessi ár. Stutta lýsingin yfir þau bæði sem og þau sem á eftir er getið er heiðurshjón.
Guðrún Böðvarsdóttir félagi nr 125.
Þá nefni ég þriðja heiðursfélaga sem útnefndur í ár. Þessi ljúflingur með breiða brosið og hlýlega fasið er einnig vel þekktur og hefur glatt okkur ómælt í gegnum árin með sínu glaðlega og óeigingjarna nikkuspili. Einstakur öðlingsdrengur hann
Gunnlaugur Valtýrsson félagi nr 200.
Þú hreinlega getur ekki verið svo glaðlegur og hýr á brá nema vera vel giftur og það er hann Gulli okkar sannarlega. Hans yndislega eiginkona, hefur einnig fylgt okkur í félaginu í fjöldamörg ár. Á milli þeirra er þráður sem gæti kallast öfundsverður á tímum sundurleits samfélags og án Jóhönnu hefðum við ekki notið svo margra gleðistunda með Gulla,
Jóhanna Haraldsdóttir félagi nr 200.
Kæru heiðursfélagar, stjórn félags húsbílaeigenda óskar ykkur öllum innilega til hamingju með verðskuldaða titla. Við vonum að þið eigið eftir að ferðast með okkur mörg ár í viðbót. Það er sannur heiður stjórnar Félags húsbílaeigenda að útnefna ykkur sem heiðursfélaga Félags húsbílaeigenda árið 2022.
Smyrilline: Ég hef verið í sambandi undanfarin ár við Smyrilline varðandi afslátt til Félags húsbílaeigenda og náði nú loksins fram jákvæðum undirtektum. Það mál er sum sé komið í ferli og þegar komin staðfesting frá þeim á að við munum fá einhvern afslátt í bílaferju frá Þorlákshöfn til Rotterdam. Þau ætla að vera í sambandi þegar flötur er komin á fyrirkomulagið frá þeirra hendi.
Þetta er mikið fagnaðarefni fyrir okkur og opnar mögulega á tækifæri til ódýrari hópferðalaga erlendis undir nafni félagsins. Þessi afsláttur mun engu að síður gilda líka fyrir einstaklings ferðir. Ég hef ekki fleiri orð um þetta en upplýsi ykkur um leið og frekari upplýsingar berast mér frá Smyril-line. Þessir flutningar kosta upphæðir sem skipta máli fyrir fólk og því kemur allt frádrag þar okkur til góða.
Boltinn er farin að rúlla og ég mun fylgja þessu hagsmunamáli eftir!
Ég þakka fyrir góðan aðalfund.
Fyrir hönd stjórnar og nefnda.
Elín Íris Fanndal
Formaður.
 
Hér koma niðurstöður kosninga í stjórn, nefndir og skoðunarmenn.
Úr stjórn fór Kristbjörn Svansson nr. 270
Í hans stað var kosin Guðný Guðlaug Garðarsdóttir nr. 314.
Stjórn skipast þannig:
Elín Íris Fanndal formaður nr 233
Garðar Geir Sigurgeirsson nr. 22
Guðný Elín Geirsdóttir nr 22.
Guðný Guðlaug Garðarsdóttir nr. 314
Sigurbjörg Einarsdóttir nr. 7
Sigríður Einarsdóttir nr. 204
Daði Þór Einarsson nr. 233
Stjórn á eftir að skipta með sér verkum.
Úr skemmtinefnd fóru Ágústa Överby og Árni Björnsson nr. 300
Skemmtinefnd skipast þannig:
Elín Þorsteinsdóttir nr. 216
Kristín Ingólfsdóttr nr. 250
Sverrir Vilbergsson nr. 216
Engin gaf kost á sér í skemmtinefnd svo þar vantar allavega einn félaga.
Einnig vonumst við til að þau Einar Marteinn Bergþórsson og Rúna Ösp Unnsteinsdóttir nr. 185 verði áfram aðstoðarmenn skemmtinefndar.
Ferðanefnd stendur óbreytt, þau Elín Bjarnadóttir nr 525 skiptu sínum stöðum þannig að Elín sem hefði átt að fara út núna verður áfram 1 ár og Þorvaldur 2 ár.
Ferðanefnd skipast þannig:
Elín Bjarnadóttir nr. 525
Hafdís Brandsdóttir nr. 394
Rafnar Birgisson nr. 36
Þorvaldur Egilsson nr. 199
Skoðunnarmenn sem gengu út eru:
Gísli J. Grímsson nr. 241
Ægir Franzson nr. 170.
Kjörnir skoðunnarmenn eru:
Ásgerður Ásta Magnúsdóttir nr. 501
Lárus Skúlason nr. 610