Góða kvöldið kæru félagar.
Kæri Jói okkar hjartans þakkir fyrir þessa æðislega súpu.
Verið hjartanlega velkomin í Stóruferð Félags húsbílaeigenda. Það er virkilega gaman að sjá ykkur öll hér í kvöld. Eru ekki einhverjir nýir félagar með okkur í þessari ferð? Þið megið gjarnan rísa á fætur og við klöppum fyrir ykkur.
Ég veit að þessi ferð mun ekki svíkja neinn fremur en fyrri daginn, það gerist alltaf eitthvað einstakt, hlýtt og gott þegar félagar okkar koma saman. Samheldni og vinátta einkenna ferðir okkar og þess vegna kemur fólk ár eftir ár með okkur.
Vissulega hefur fólk þó mun frjálsari hendur í dag varðandi ferðalög á húsbílum, nú er ekkert mál ef fjárhagur stendur ekki í vegi að ferðast um Evrópu á sínum eigin bíl, og fólk er farið að nýta sér það í mjög auknu mæli. Skiljanlega, það er mjög spennandi valkostur sem að við hjónin erum aðeins farin að hugsa til. Það er fjésbókarhópur sem nefnist Húsbílaferðir í Evrópu, skemmtilegur og fræðandi hópur þar sem fólk miðlar reynslu sinni af þessháttar ferðalögum.
En þó að við kjósum að prufa að sigla með bílinn okkar er engin ástæða til að vera ekki áfram í Félagi húsbílaeigenda. Félagar njóta alskyns afslátts þó að virkni félaga minnki tímabundið. Td er 20 % afsláttur af ferjugjaldi fyrir bílinn til þriggja hafna í Evrópu í boði fyrir okkur gegn framvísun félagaskírteinis.
En aftur að þessari spennandi ferð sem þegar er hafin, bara nokkur formleg atriði sem þarf að hafa í huga.
Það er hjartastuðtæki og sjúkrakassi í bíl nr. 204 Norðurkot. Bíllinn er merktur og það er auðvelt að nota það, þið þurfið ekki að hafa áhyggjur um að það virki ef púls er til staðar þó hann sé ekki merkjanlegur. Tækið nemur hann og gefur EKKI straum ef hann er til staðar. Haldið ró ykkar, bæði sá eða sú sem notar tækið og fólk í kring. Allur hávaði truflar þann sem er að nota það, það er rödd sem leiðir ferlið áfram og hún þarf að heyrast.
Virðum tímamörk áningastaða, reynum að forðast kapphlaup til að komast sem fyrst á næsta stað. Félagið er ekki með frátekið svæði fyrr en ferðadagur rennur upp. Þar sem rafmagn er af skornum skammti ganga þau fyrir sem nauðsynlega þurfa að nota það. Eins er með stæði nálægt húsi, þau eru fyrst og fremst ætluð þeim sem eiga erfitt um gang og eða geta ekki án rafmagns verið, við hin sýnum sjálfsagða tilitsemi og nýtum okkur hreyfinguna okkur til góðs.
Ég vil hvetja þau sem ekki eru þegar merkt félaginu að bæta þegar úr því, það verða til sölu merki á bílana á markaðnum. Bílar eiga að vera merktir bæði að aftan og framan.
Það er ennþá hægt að skrá sig í skoðunarferðina, hún er rausnalega niðurgreidd af félaginu, leiðsögumaðurinn sagður bráðskemmtilegur og þaulkunnugur svo það er engin ástæða til aðsleppa henni, það lítur ekki út fyrir neitt sólbaðsveður hvort sem er.
Eins og þið vitið þá á félagið okkar góða hvorki meira né minna en 40 ára afmæli þann 27. ágúst næstkomandi. Það verður blásið til stórglæsilegrar afmælishátíðar að því tilefni, sjálfa afmælishelgina í Íþróttahúsinu í Garði. Það verða næg stæði fyrir bílana og er það einlæg von stjórnar og nefnda að þið fjölmennið til að fagna þessum merku tímamótum með okkur. Gestir eru líka velkomnir. Takið helgina frá til að taka þátt í þessu galakvöldi með okkur, 40 ára afmæli Félags húsbílaeigenda gerist bara einu sinni, það má alveg fórna einhverju öðru fyrir það.
Kæru félagar, okkur hjónum hlakkar ómælt til næstu 8 daga með ykkur, við tölum af reynslu þegar við hælum ferðafélögum sem sýna okkur aldrei annað en velvild og og hlýju. Við skulum taka fallega á móti þeim sem nýir eru svo þeir geti líka hælt okkur í framtíðinni og langi að koma með okkur aftur.
Með þessum orðum segi ég Stóruferð Félags húsbílaeigenda formlega setta.
Elín Fanndal formaður nr 233