Aðalfundur Félags húsbílaeigenda Laugardaginn 2. nóvember 2019 Fjölbrautarskólinn Akranesi
05.11.2019Skýrsla formanns..
Góðan daginn kæru félagar og mikið gleður það okkur að sjá hversu vel er mætt til vinafundar.
Ég vil biðja fólk að rísa úr sætum og minnast látinna félaga með hluttekningu og hlýju.
Kæru vinir. Nú ljúkum við þessu frábæra ári með aðalfundi og sannarlega er margs að minnast, enda árið viðburðaríkt eins og ævinlega hjá okkur í Félagi húsbílaeigenda.
Takk fyrrverandi formenn:
Þegar hugur reikar til baka þetta fyrsta ár mitt sem formaður tekur ánægja völd hvað starfið varðar. Bestu þakkir fyrrum formenn fyrir ykkar góða og fórnfúsa starf og Anna Pála þakka þér fyrir að treysta okkur Daða fyrir keflinu. Þetta hefur verið afar lærdómsríkt og í heildina bráðskemmtilegt ár hjá okkur þó vissulega hafi verið brekkur enda starfið viðamikið og við í byrjun rennblaut á bak við eyrun.
En við létum það ekki á okkur fá. Það eru ævinlega brekkur í lífi sérhvers manns og þá er ekkert í boði annað en að klífa þær og njóta þess svo að halda áfram veginn.