Ferðir sumarsins 2025
Ferð 1. 23. – 25. maí. Vogar
Sveitarfélagið Vogar varð til við nafnabreytingu sem tók gildi 1. janúar 2006, en um aldir hafði sveitarfélagið gengið undir nafninu Vatnsleysustrandarhreppur. Elstu heimildir um Vatnsleysustrandarhrepp eru í landamerkjalögum frá 1270 og má því ljóst vera að hreppurinn er eitt elsta sveitarfélag landsins. Tjaldsvæðið í Vogum er á gróinni grasflöt þar sem áður var knattspyrnuvöllur sveitarfélagsins við hlið Íþróttamiðstöðvar Voga. Aðstöðuhús fylgir svæðinu, þar sem er aðgangur að salerni, sturtu, uppþvottaaðstöðu og góðu eldhúsi. Þá er einnig gott aðgengi að rafmagnstenglum. Verð auglýst síðar.
Ferð 2. 6. – 9. júní. Hvítasunnuferð í Þykkvabæ
Þykkvibær er í Rangárþingi ytra, á milli Þjórsár og Hólsár, um það bil 1,6 kílómetra frá sænum. Bærinn stendur í austanverðu landnámi Þorkels Bjálfa í Háfi. Sjósókn var í aldaraðir mikilvægur þáttur í sögu Þykkvabæjar og má rekja þéttbýlismyndunina til sjósóknar. Þykkvibær er nú þekktur fyrir kartöflurækt. Tjaldsvæðið er við íþróttahúsið sem við höfum afnot af alla helgina. Verð auglýst síðar.
Ferð 3. 27. – 29. júní. Fjölskylduferð – Hvolsvöllur /stórt tjaldsvæði
Tjaldsvæðið á Hvolsvelli er gamalgróið svæði með tveimur aðstöðuhúsum. Annað er með uppvöskunaraðstöðu og salernum, ásamt einfaldri eldunaraðstöðu.
Einnig er um að ræða nýtt hús með salernis- og sturtuaðstöðu sem einnig er með aðgengi fyrir fatlaða. Losunarsvæði er fyrir húsbíla og hjólhýsi og rennandi vatn er á því svæði. Svæðið er með leiktæki fyrir börn og einnig er aðstaða til þess að þurrka þvott úti. Rafmagnstenglar eru á svæðinu sem og nettenging, stutt er í alla almenna þjónustu á Hvolsvelli. Verð auglýst síðar.
Ferð 4. Stóra ferð 11. – 20. júlí. Snæfellsnesið
– 13. júlí Lýsuhóll/ stóra ferð
Lýsuhóll er bær í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi. Á Lýsuhóli er jarðhiti og þar er starfræktur skóli og félagsheimili. Sundlaug er hituð upp
með náttúrulegu heitu ölkelduvatni beint úr jörðu. Um er að ræða grænþörungslaug og er vatnið mjög steinefnaríkt og talið afar hollt og græðandi. Borað var eftir vatni þar árin 1946 og 1963 og hefur ölkelduvatnið á Lýsuhóli verið sett í sölu á almennum markaði í neytendaumbúðum. Jarðhitinn, laugin og ölkelduvatnið eru þekkt frá fornu fari og langt síðan að laugin var fyrst notuð til baða. Var þá byggt yfir hana baðhús sem nú er löngu horfið, en þróin þar sem baðkerið var sést þar enn. Gamla laugin og kalkútfellingar þar hjá eru á náttúruminjaskrá, ásamt hallamýri ofan þeirra, hvar er óvenjulegt gróðurfar og sjaldséðar jurtir. Verð auglýst síðar.
- – 15. júlí Stykkishólmur/stóra ferð
Akstursvegalengd frá Lýsuhóli til Stykkishólms er 62 km . Í Stykkishólmi er íbúafjöldi tæplega 1300. Tjaldsvæðið er á hægri hönd þegar komið er inn í bæinn. Stutt er í alla þjónustu,verslun,bakarí,bensínstöð og sundlaug sem er í göngufæri frá svæðinu (5) mín.
9 holu golfvöllur er staðsettur við hliðina á tjaldsvæðinu þar sem hægt er að leigja golfkylfur. Afgreiðsla fyrir svæðið er í golfskála golfklúbbsins Mostra, sem staðsettur er fyrir innan tjaldsvæðið. Á tjaldsvæðinu eru 2 útisturtur, þvottavél og þurrkari. Verð auglýst síðar.
- – 17. júlí Grundarfjörður/stóra ferð
Akstursvegalengd frá Stykkishólmi til Grundarfjarðar er 38 km. Bæjabúar eru ca. 900. Tjaldsvæði Grundarfjarðar er staðsett í ofanverðum jaðri bæjarins með einstakt útsýni hvort sem er til sjávar eða fjallgarðsins. Rétt við tjaldsvæðið er sundlaug þar sem hægt er að komast í sturtu gegn gjaldi. Þar er einnig nýr frisbígolfvöllur.
Grundarfjörður er rómaður fyrir lognstillu á kvöldin þar sem kvöldsólin nýtur sín til hins ýtrasta. Útilegukort já. Seyrulosun já. Verð auglýst síðar.
- – 20. júlí Ólafsvík/stóra ferð
Akstursvegalengd frá Grundafirði til Ólafsvíkur er 25 km. Ólafsvik er 1000 manna byggð þar sem tjaldsvæði Ólafsvíkur er við austari enda bæjarins. Þar er
þjónustuhús með heitu og köldu vatni,sturtum og salerni. Frisbígolfvöllur er við tjaldsvæðið.Tenglar eru 25-30. Möguleiki er að hafa bíla við hliðina á félagsheimilinu þar sem lokahófið fer fram. Einungis 8 mín ganga er á milli tjaldsvæðis og félagsheimilis. Seyrulosun já. Verð auglýst síðar.
Ferð 5. 8. – 10. ágúst. Árblik í Dölum
Árblik er félagsheimili staðsett í Miðdölum í um 130 km akstursfjarlægð frá Reykjavík og 14 km frá Búðardal. Húsið er vel stórt, á tveimur hæðum og fyrir utan húsið er tjaldsvæði. Rafmagnstenglar eru 12 (hugsanlega hægt að bæta við tenglum). Aðgangur að salnum alla helgina. Seyrulosun já. Útilegukort já. Verð auglýst síðar.
Ferð 6. 22. – 24. ágúst. Árshátíð – Þingborg
Þingborg er félagsheimili við þjóðveg 1, 10 km austan við Selfoss. Þar er stór grasflöt og bílastæði þar sem einnig er hægt er að leggja bílum. Tenglar eru ca. 30 talsins. Í göngufæri er gamla Þingborg þar sem er ullarverslun/handverksverslun. Félagsheimilið er til afnota fyrir okkur alla helgina. Tveir heitir pottar eru við húsið sem eru til afnota fyrir alla hvenær sem er. Engin seyrulosun er á staðnum. Verð auglýst síðar.
Ferð 7. 5. – 7. september. Ljósaferð- Furðuföt Goðaland í Fljótshlíð
Félagsheimilið Goðaland í Fljótshlíð er einstaklega vel í sveit sett og er staðsett um það bil 8 km austur af Hvolsvelli. Við félagsheimilið Goðaland er tjaldsvæði sem rúmar allt að 200 bíla. Þar eru 18 rafmagnstenglar og nóg af sturtum. Félagsheimilið er til afnota alla helgina. Athugið að ekki er seyrulosun á staðnum. Hægt er að losa á Hvolsvelli. Verð auglýst síðar.