Stóra-ferðinn

Kæru félagar.

Nú er komið að Stóru-ferðinni okkar sem verður farin um Suðurlandið og byrjar á Selfossi n.k. laugardag 11.júlí og endar að Mánagarði í Nesjahverfi skammt frá Höfn í Hornafirði.

Við vonumst til að sjá ykkur sem flest í þessari rúmlega vikuferð.  Margt er að skoða á þessari leið þó svo við höfum mörg okkar farið þarna oft þá er alltaf eitthvað nýtt að sjá og þið fáið í hendurnar góðan Leiðarvísir þar sem búið er að taka saman heilmikið efni um áhugaverða staði sem vert er að gefa gaum og þar í er einnig dagskráin fyrir alla dagana. Svo verður líka svo gaman að hittast á tjaldstæðunum og það er ýmislegt sem við gerum saman eins og dagskráin ber með sér sem fylgir hér með.

Vinaleikurinn sem hefur verið undanfarin 2-3ár verður áfram og kynntur á laugardagskvöldið ásamt nýjum leik „bjórleik“ þetta er spennandi og verður gaman að taka þátt í þessu.

Við vonum svo sannarlega að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir og sýni okkur sína bestu hlið sem sagt sól og blíðu en við mætum með sól í hjarta og sól í sinni.

Orkan kemur að ferð okkar með því að veita félögum í Félagi húsbílaeigenda -12kr. á lítrinn bensín/olía, frá föstudeginum 11.júlí og alla ferðina til 20.júlí,  endilega nýtið ykkur þetta tilboð.

Ég vil benda ykkur á tengla á heimasíðunni okkar sem þið ættuð að skoða það er fyrst til að nefna  „Sölusíðan“  „Auglýsendur“  allir þeir sem auglýsa hjá okkur, og svo,  „Tilboð til félagsmanna“ frá fyrirtækjum sem veita afslátt til félagsmanna  og svo fyrir okkur öll sem erum að ferðast vítt og breytt þá er tengill á sölusíðunni fyrir „Tjaldstæði“ en þar eru nokkuð mörg tjaldstæði sem veita félagsmönnum afslátt af gistingu.

Einnig hefur bæst við á „TENGLAR“  þar má sjá hvar er losunaraðstaða WC.  Hvar sundlaugar eru á landinu, og nýr vefur visitingIceland.is  o.m.fl.   tenglarnir eru í stafrófsröð, mikill fróðleikur þarna.  

Dagskrá Stóru-ferðar:

Föstudagur 11. júlí (dagur 1)

Tjaldstæðið á Selfossi, Gesthús. Munið að föstudagar eru hattadagar, ekki gleyma höttunum heima.!

Laugardagur 12. júlí (dagur 2)

Fólki er bent á að kynna sér söfn og aðra afþreyingu á Selfossi. Stutt er í alla þjónustu frá tjaldstæðinu.

Kl 09.45 lagt af stað fótgangandi (vegalengd c.a. 950m)

Kl. 10.00 Brunavarnir Árnessýslu bjóða húsbílaeigendum að skoða nýja Slökkvistöð, kynningu á

notkun slökkvitækja og einnig verður sýnt hvernig menn bera sig að við að klippa bíla. Áhugavert fyrir bæði konur og karla.

Brunavarnir bjóða upp á kaffisopa að lokinni kynningu. Slökkviliðstjórinn mun sýna myndir frá ýmsum tímum og viðburðum í sögu Selfoss og fylgja þeim eftir með skýringum.

Kl. 21.00  Soffía formaður setur ferðina og fyrirkomulag ferðarinnar kynnt.

Vinaleikur og bjórpottur:

Þeir sem ætla að taka þátt komi að Mánadísinni nr. 696,  eftir að Soffía hefur lokið máli sínu.Ef einhver sem getur ekki mætt fyrr en á sunnudegi-mánudegi og vill vera með í leiknum þá biðjið vini ykkar að draga fyrir ykkur vin og afhenda þeim gjafir.

Frekari upplýsingar um leikina er svo að finna í leiðarvísir sem þið fáið afhent hjá ferðanefnd þegar þið greiðið fyrir ferðina.

 

Sunnudagur 13. júlí (dagur 3)

Selfoss – Hamragarðar (71,7 km) Tjaldstæðið er rétt innan við Seljalandsfoss er við fossinn Gljúfrabúa.

Mánudagur 14. júlí (dagur 4) Vestmannaeyjaferð fyrir þá sem hafa þegar pantað.

Kl. 12.00 Rúta leggur af stað frá Hamragörðum að Landeyjarhöfn

Tilboð pr mann með Herjólfi fyrir farþega 16-66 ára kr. 2.080 á mann (verð 1.040 kr önnur leið)

Tilboð pr mann með Herjólfi fyrir farþega + 67 ára kr. 1.040 á mann (verð 520kr önnur leið)

Kl. 13.00 Brottför frá Landeyjahöfn með Herjólfi.

Eftir komuna til Eyja er skoðunarferð um Vestmannaeyjar í rútu, félagi okkar Guðmundur Karl nr. 266 verður leiðsögumaður (2-3 tíma) komið m.a. við hjá Grími kokk.

Frjáls tími í miðbæ Vestmannaeyja að lokinni skoðunarferð.

Kl. 17.00 Mæting í Herjólf og brottför 30 mín seinna. Rútan skilar okkur í Hamragarða.

Þriðjudagur 15. júlí (dagur 5)

Hamragarðar – Vik í Mýrdal (59,1 km)

Gist verður á tjaldstæðinu. Margir áhugaverðir staðir á leiðinni til að skoða, Skógarfoss – Minja og samgöngusafnið að Skógum – Gestastofan á Þorvaldseyri og Seljavallalaug, Dyrhólaey,margir hellar eru undir Eyjafjöllum sem vert er að gefa gaum.

kl. 20.30 Guðný Guðnad. mun ganga með okkur um Vík og segja okkur eitthvað markvert um staðinn, gaman væri að enda svo á einhverjum pöbb á Vík..

Miðvikudagur 16. júlí (dagur 6)

Vík í Mýrdal – Skaftafell (140 km)

Áhugaverðir staðir eru: Þakgil – Laufskálavarða – Hrífunes – Fjaðrárgljúfur – Systrastapi og Systrafoss –Kirkjugólfið – Foss á Síðu – Dverghamrar – Orrustuhóll – Núpstaður (ef hann er opinn ferðamönnum). Gist verður á tjaldstæðinu í Skaftafelli.

Kl. 20.30 Leikir: Hér vantar 4 í hvert lið – Ratleikur sem hefst við Bláa naglann nr 233. (Hafið með ykkur blýant/penna)

Fimmtudagur 17. júlí (dagur 7)

Í Skaftafelli eru ótal gönguleiðir og er bent sérstaklega á Svartafoss.

Kl. 19.00 Hér væri kjörið að raða borðum á einn stað og borða saman. Fróðleikur og bingó. Kl. 20.00 Kristján Benediktsson nr. 529 segir frá áhugaverðum stöðum af leiðinni sem ekin verður á morgun. Bingóspjöld seld fyrir og eftir mat. Glæsilegir vinningar.

Föstudagur 18. júlí (dagur 8)

Skaftafell – Mánagarður í Neshverfi (127 km)  Munið föstudagar eru hattadagar.

Helstu staðir á leiðinni eru: Jökulsárlón – Þórbergsetur – og munið að horfa á landslagið.

Kl. 21.00 Kvöldvaka í Mánagarði. Söngbókin tekin fram – Vinaleikur upplýstur – Útsvar

Allir að mæta með söngbækur og hljóðfæri. Leikin verður tónlist af hljómplötum fyrir þá sem vilja dansa fram til kl. 24.00 ef stemning er góð.

Laugardagur 19. júlí (dagur 9)

Kl. 12.00 Stillt upp fyrir markað.

Kl. 13.00 – 15.00 Markaður félagsmanna.

Eftir markaðinn röðum við borðum og stólum fyrir lokahófið.

Kl. 20.00 Lokahóf.

Hátíðarkvöldverður  Hlaðborð mjög góður, frá Hótel Höfn- Skemmtidagskrá – Bílahappadrætti – Ratleiksvinningur og dansleikur með         Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar.

Sunnudagur 20. júlí (dagur 10)

Takk fyrir samveruna og góða ferð heim eða áfram í fríið.

Njótum samverunnar, eigið öll góðar stundir.

Sjáumst f.h. Stjórnar, ferða-og skemmtinefndar

Soffía G. Ólafsdóttir, formaður.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *