Skoðunardagurinn og fleira

Skoðunardagurinn er laugardaginn 7. maí hjá Frumherja að Hesthálsi 6-8 í Reykjavík. Það má segja að þetta sé fyrsta ferðin okkar og við hvetjum alla þá sem þurfa að láta skoða bílana sína að mæta með bílinn í
skoðun á laugardeginum og þeir sem hafa tök á því að koma á föstudagskvöldinu
og gista á planinu hjá Frumherja. Einnig hvetjum við þá sem ekki þurfa að láta
skoða að koma því það er svo margt í gangi á laugardeginum sem er fróðlegt og
skemmtilegt. Á laugardagsmorguninn býður Frumherji öllum þeim sem gista á
planinu upp á morgunverð kl. 8.00. Þeir ætla síðan að byrja að skoða bílana kl.
9.00 og verða þeir með nægan mannskap svo þetta ætti að ganga vel fyrir sig.
Áætlað er að skoðun ljúki kl. 14.00. Boðið verður upp á kaffi, heitt kakó og
vínarbrauð og um hádegisbilið verða grillaðar pylsur og gos.

 
Kl 11-14 fer fram slökkvitækjakynning í
boði Eldvarnarmiðstöðvarinnar og Pitstop verður með kynningu á dekkjum og sinni
þjónustu. Sýnikennsla verður í brunavörnum, og á slökkvitækjum.
Boðið
verður upp á lifandi tónlist sem hljóðfæraleikarar úr félaginu munu sjá um.
Forvarnarfulltrúi frá VÍS kemur og talar
um forvarnir við okkur.
Eins og þið sjáið á þessari upptalningu þá
verður boðið upp á margt á skoðunardeginum og því um að gera að fjölmenna,njóta
og fræðast og hitta félagana eftir langan vetur. Við viljum biðja þá sem ætla
að gista að skrá sig svo að Frumherji verði með nógan morgunmat. Hafið samband
við Soffíu í síma 896-5057 eða Sævar í síma 898-5920 eða sendið tölvupóst á husbill@husbill.is
Aðeins verða húsbílar skoðaðir þennan dag
og er verðið 5.200 kr. óháð stærð og vinsamlegast sýnið félagsskírteinið ykkar
2011. Allir félagar í Félagi húsbílaeigenda fá boðsbréf frá Frumherja og gildir
þetta tilboð (verðið) á öllum skoðunarstöðum Frumherja um allt land til 1.júlí
n.k.
Eftir skoðun ætlum við svo að hittast kát
og glöð á nýskoðuðum bílum á tjaldsvæðinu á Víðilsstaðatúni í Hafnarfirði, verð
750 kr pr mann ásamt rafmagni. Vonandi sjá sem flestir sér færi á því að koma
þessa helgi og gera góða útilegu úr þessum Skoðunardegi.Greiðsla félagsgjaldsins:
Þar sem þó nokkuð margir hafa verið að greiða félagsgjaldið núna á síðustu dögum þá mun formaður hafa félagatalið og félags-og afsláttarskírteinin með sér á Skoðunardaginn  til Frumherja  og afhenda félagsmönnum, það er varla að þetta náist til ykkar í pósti fyrir helgina.Eldvarnirnar: Við viljum árétta það sem  Jóhann Sævar Kristbergsson eldvarnareftirlitsmaður frá Brunavörnum Suðurnesja talaði um á ferðafundinum í sambandi við  brunavarnir á tjaldstæðum. Þar tók  hann skýrt fram að hafa þyrfti góðar flóttaleiðir og í því sambandi þyrfti að passa vel upp á að bílar, hjólhýsi og aðrir vagnar væru ekki  of þétt lagðir, það getur skapað mikla hættu.
Hér er um þarfa ábendingu að ræða sem við öll skulum hafa í  huga. Hér er smá mynd sem hann sýndi okkur sem gott er að hafa í huga þegar við leggjum bílum okkar þar sem við gistum. Verum öll meðvitum um þá hættu sem skapast getur ef við leggjum of þétt og t.d. myndi kvikna í.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *