Haustferð á tjaldstæðið Hverinn á Kleppjárnsreykjum og fréttabréfið

Kæru félagar. 

Allt fram streymir endalaust, 

ár og dagar líða. 

Nú er komið hrímkalt haust, 

horfin sumars blíða.

Mér datt í hug þetta kvæði eftir Kristján Jónsson þegar ég  settist fyrir framan tölvuna og leit út um gluggann. Vindurinn gnauðar úti og regnið bíður þess að falla niður og þeir hjá Veðurstofunni spá miklu roki þegar líður á daginn, en sem betur fer þá lygnir alltaf aftur og við getum tekið gleði okkar að nýju og haustið á sinn sjarma með öllum sínum litbrigðum sem við fáum vonandi að njóta nú í haust eins og svo oft áður.

Nú er komið að fyrri haustferðinni okkar á tjaldstæðið Hverinn á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði.það er bara núna um helgina 13.-15.sept.

Tjaldsvæðið  Hverinn býður upp á endurnýjað og frábært tjaldsvæði á Kleppjárnsreykjum, þar sem boðið er upp á 70 rafmagnstengla, rými fyrir 80-100 tjaldvagna/húsbíla og jafnvel fleiri, netsamband, úrval leiktækja, sturtur, þvottavél, þurrkara og frábært svæði á sælureit okkar í sveitinni. (tekið af vef þeirra) 

Umhverfið er glæsilegt og býður upp á afþreyingu af ýmsum toga, en sundlaugin á Kleppjárnsreykjum er aðeins 150 metra frá tjaldsvæðinu, hestaleiga í næsta nágrenni og eins eru aðeins 3 km í golfvöllinn á Nesi, sem er frábær 9 holu golfvöllur.

Hverinn opnaði 28.maí 2011 eftir eigendaskipti og miklar endurbætur. Eigendur eu mjög spenntir að fá okkur félagana í Félagi húsbílaeigenda í heimsókn um helgina og vonandi verður veðrið okkur hliðhollt og við njótum þess að dvelja á þessum nýuppgerða stað.        Þau hjá Hvernum sendu okkur tilboð sem ég læt fylgja hér með. 

“Við getum boðið ykkur upp á súpu, nýbakað brauð og smjör og kaffi á eftir á 1200 kr á föstudeginum..

 

Við ætlum að bjóða upp á tvær af vinsælustu súpunum okkar súpu hússins \“Hverasúpu\“ sem er grænmetissúpa með hint af karrí og engifer. Búin til úr okkar eigin grænmeti. Vinsælasta súpan í sumar. Síðan ætlum við að hafa tómatsúpuna okkar sem er einnig gerð úr okkar eigin tómötum, mild súpa með sætu tómatbragði. Ofsalega góð.

 

Einnig erum við með fjölbreytt úrval veitinga á matseðli s.s hamborgara, pizzur, samlokur, grænmetisrétti okkar vinsæla \“Hverasalat\“ blandað salat með fetaosti ef vill. Einnig fisk dagsins t.d. hefur djúpsteiktur fiskur með salati, hrísgrjónum, frönskum og uppbakaðri mildri súrsætri sósu með bambus og grænmeti verið mjög vinsæll. Þannig að það verður fullt af djúsí mat handa ykkur úr að velja um helgina ásamt léttvíni og bjór eða einhverju sterkara  😉

 

Svo getið þið skellt upp markaði eða mætt með nikkuna á svæðið ef þið viljið. Það hefur t.d.  verið dansaður víkivaki af einhverjum hóp þarna hjá okkur í sumar svo endilega skella upp skralli. Hleypa smá lífi í þetta  🙂

 

Grænmetissalan verður svo líka opin :)”

Hljómar vel.  Verðið á tjaldstæðinu  fyrir helgina er félagsmaður  kr.2.000 á bíl gestir greiða 3.000 kr. á bíl. Rafmagn er kr. 800,– pr, nótt.         Vonandi sjáumst við sem flest. Ef veðrið verður skaplegt sem við vonum þá væri gaman að sjá bílana skreytta með ljósum, luktum, fyrir utan bílana en við verðum að spila þetta allt eftir veðri

Lokaferð er  að Félagsgarði í Kjós 27.-29.sept.  Verðið fyrir helgina er kr.  2.000.-á bíl,  gestir greiða 3.000,– kr. á bíl . Boðið verður upp á kjötsúpu í hádeginu á laugardeginum, settur upp markaður,  einnig verður lokakeppni í útsvarinu skemmtiatriði  og endað með dansleik. Nánari dagskrá kemur þegar nær dregur.

Aðalfundur félagsins er 19.okt. n.k. í sal Fjölbrautarskóla Vesturlands Akranesi  kl. 14.00, kaffiveitingar að fundi loknum. 3 aðilar sem eru í stjórn félagsins nú, geta hætt það eru þau Anna Pála nr. 595, Katrín nr. 468  og Absalon nr. 390, þau hafa öll gefið kost á sér að vera áfram næstu 2 árin. Ferðanefndin sem skipuð er: Anna Margrét nr. 165, Ásgeir nr. 712, Árni nr. 65 og Hrafnhildur nr. 698 gefa öll kost á sér í 1.ár í viðbót. Skemmtinefndin sem nú er ætlar öll að draga sig í hlé svo nú vantar okkur  fólk í skemmtinefnd félagsins, ég veit að það er fullt af fólki í félaginu sem getur tekið það að sér að vera í skemmtinefndinni endilega hafið samband við formann félagsins Soffíu í síma 896-5057 eða sendið tölvupóst. Ef einhverjir félagar vilja gefa kost á sér í stjórnina og eða ferðanefndina þá endilega látið formann vita um það, þá verður kosið á milli manna sem gefa kost á sér. 

Árið endar svo með árshátíð Félags húsbílaeigenda  1.-3.nóv að Hótel Örk, við erum farin  að taka niður pantanir, og eru margir búnir að skrá sig,  tökum við gjaldi og skráum ykkur í næstu ferð hvetjum ykkur til að  koma á árshátíðina og eyða góðri helgi saman og förum yfir þetta flotta sumar sem við höfum átt saman,  endilega skráið ykkur.

Verð eru eftirfarandi: . 

Fyrir hjón 1 nótt með þriggja rétta máltíð kr. 23.700.—ef   fólk vill koma  á föstudeginum kostar  sú nótt fyrir tvo  (hjón) 6.900,–kr.  og er þetta með morgunverði  báða dagana.

Fyrir einstakling kostar  gisting og þriggja  rétta máltíð kr. 16.800.–,  aukanóttin á föstudeginum  4.900,–kr.  Ef einhverjir vilja koma í matinn og skemmtiatriðin þá kostar það 7.000 kr. pr. mann  

Félagið  býður upp á fordrykk og sér einnig  um hljómsveit og skemmtiatriði.  Hótelið mun verða með tilboð fyrir hótelgesti á drykkjum. Við höfum látið bóka 50 herbergi.   Endilega skráið ykkur sem fyrst nú þegar er komið í yfir 35 herbergi. Þið getið einnig  sent skráningu á  husbill@husbill.is  eða hringt í síma 896-5057 

Galtalækjarskógur, 16.-18.ágúst þar vorum við með furðufataball, þessi helgi tókst mjög vel, veðurguðirnir voru í svo góðu skapi, sú gula skein sem skærast á okkur,  mættir voru um 60 bílar og er þetta svæði mjög skemmtilegt með góðum gróðri og rjóðrum hér og þar. Margar kynjaverur fóru á kreik á laugardagskvöldinu og höfðum við félagarnir gaman að, dönsuðum af okkur skóna undir léttum tónum félaganna í „Bara tveir“ 

Afmælishátíðin  23.-25.ágúst, tókst alveg glimrandi vel, og vil ég þakka öllum þeim sem komu að þessari skemmtan hjartanlega fyrir alla þá vinnu sem í þetta var lagt. Aðilar úr  Björgunarsveitinni  Ægir og Knattspyrnufélaginu  Víðir fá hrós fyrir allan undirbúninginn  í Íþróttahúsinu og utanumhald allt kvöldið, Axel Jónsson kokkur og hans fólk fá þakkir frá okkur fyrir góðan mat, allir sem skemmtu okkur og komuð okkur í þvílíkt stuð og ekki má gleyma hljómsveitinni  Hafrót sem spilaði eins og enginn væri morgundagurinn og þið félagar góðir og gestir sem komuð á þessa hátíð takk fyrir komuna og ykkar léttleika og hlýju, 420 manns tóku þátt í gleðinni. 

Ég vil koma því hér á framfæri,  að ykkur var mikið hrósað fyrir góða umgengni í sal íþróttasalarins það varla þurfti að skúra gólfið svo vel var gengið um og á tjaldstæðinu þar sem allir þessir bílar voru  var ekkert rusl allt „spikk and span“ þetta er frábært að heyra og ekkert nýtt hjá okkur, því í Stóru-ferðinni hafði umsjónarmaðurinn á Sauðárkrók orð á því hvað við gengjum vel um ekkert rusl eftir alla þessa bíla og sömu sögu var að segja frá Ólafsfirði, og í Galtalæk  það er frábært að fá svona umsagnir  og við látum þetta vera aðalsmerki okkar í framtíðin  eða  eins og stendur í 2.grein okkar laga lið d) „stuðla að góðri umgengni um landið“ 

Nýir félagar: Nýir félagar hafa bæst í hópinn, við bjóðum þá alla hjartanlega velkomna í Félag húsbílaeigenda og vonum að þeir megi eiga góðar stundir í þessum frábæra félagsskap.

163. Stefán L. Kristjánsson og Margrét Sigurðardóttir, Reykjavík.

208. Hallmundur Guðmundsson og Agnes Björk Magnúsdóttir, Hvammstanga.

227. Hilmar Jóhannsson og Guðrún Helgadóttir, Garðabæ.

304. Ólafur Böðvar Þórðarson og Guðný S. Haraldsdóttir, Reykjanesbæ.

329. Jónas Baldursson, Reykjavík.

348. Gunnar Þorgilsson og María K. Jónasdóttir, Reykjavík.

379. Þröstur B. Söring og Ingveldur Bjarnadóttir, Reykjanesbæ.

383. Sigfús Sigurþórsson, Hafnarfirði.

384. Jón Hlíðar Runólfsson og Eygló Jónsdóttir, Hafnarfirði.

385. Sveinn Halldórsson, Vestmannaeyjum.

601. Skarphéðinn Óskar Jónasson, Reykjanesbæ.

Góðar hugmyndir og góðar sögur.

Ágætu félagar, lumið þið ekki á góðum hugmyndum sem þið viljið koma á framfæri endilega sendið þið hugmyndir ykkar á netfangið okkar husbill@husbill.is  við þurfum að fara að huga að næsta félagatali eitthvað sem ykkur finnst að eigi að vera þarna inni, endilega tjáið ykkur og sendið línu. Gaman væri að fá frá ykkur góða ferðasögu sem mætti svo jafnvel fara inn á heimasíðu okkar, segja frá uppáhaldsstaðnum ykkar, bara það sem ykkur dettur í hug. Er ekki einhver félagi sem getur ort skemmtilegar vísur um ferðir okkar og komið með skondin atvik sem þið hafið orðið vitni að, það leynist fullt af gullmolum í félaginu, lát í ykkur heyra góðir félagar.

Hittumst hress og kát í næstu ferðum félagsins.

Með bestu kveðjum

F.h. Stjórnar, ferða-og skemmtinefndar

Soffía G. Ólafsdóttir, formaður.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *