Meira um Stóru Ferðina…

Kæru félagar. Nú eru aðeins 4 dagar þar til Stóra ferðin hefst eða n.k. laugardag 10. júlí, að Freysnesi. Við höfum frétt að nokkrir félagar séu lagðir af stað og enn aðrir eru að fara á miðvikudag,  fimmtudag og föstudag. Það er spáð roki í nótt sem á að ganga yfir á morgun svo hugið vel  að veðrinu ágætu félagar og teflið ekki í neina tvísýnu þetta gengur fljótt yfir. Það er margt að skoða á þessari leið  sem viðförum frá Freysnesi til Hjaltalundar og getið þið t.d. farið inn á www.east.is  og svo fáið þið bæklinga hjá ferðanefnd í Freysnesi eða þegar þið komið inn í ferðina.

Gjaldið er 2.500 kr. pr. mann  18 ára og eldri  og fyrir gesti 3.000 kr. pr. mann 18 ára og eldri. Innifalið í þessu verði eru tjaldstæðin, húsin sem við höfum til afnota í ferðinni, rútuferðin til Eskifjarðar og Neskaupsstaðar en í þeirri ferð er leiðsögumaður og við endum þá ferð með að skoða álverið en þar mun einhver frá álverinu taka á móti okkur og segja okkur frá staðnum.

Við stoppum 2 daga á Reyðarfirði  komum þangað 13. júlí og förum þaðan 15. júlí og að áeggjan heimamanna þá hefur verið ákveðið að hafa markað á tjaldstæðinu kl. 20.00 á miðvikudeginum 14. júlí þar sem handverksfólk húsbílafélagsins getur selt sína vöru og jafnvel kæmu einhverjir heimamenn sem vilja selja og ætla tvær góðar konur á Reyðarfirði að auglýsa þetta upp fyrir okkur. Við erum svo viss um að sólin og góða veðrið verði í för með okkur að þetta verður úti en ef veðurguðirnir bregðast þá förum við í hús á Reyðarfirði sem kallað er Molinn og seljum þar, svo ágætu félagar um að gera að vera með vörurnar í bílunum sínum, við sköpum þarna góða stemmingu og boðið verður upp á kaffisopa, þið sem eruð með tölvu og lesið þennan póst látið vini ykkar vita sem ekki eru tölvuvæddir.

Við í stjórn, ferðanefnd og skemmtinefnd hlökkum mikið til að hitta ykkur og vonandi koma sem flestir og við hlökkum líka mikið til að hitta fólkið okkar sem er í félaginu á þessum landshluta og vonum að þau komi sem flest til að vera með okkur þessa viku.

Skoðið vel dagskrána en skemmtinefndin ætlar ekki að láta okkur sitja aðgerðalausa á kvöldin og er um að gera að taka þátt í leikjum og öðru sem boðið er upp á, og börnin eru hvött til að vera með eitthvað, hafa gaman saman.

Á laugardeginum mun svo hver og einn sjá um sinn mat sjálfir og eins og stendur í dagskránni þá borðum við kannksi saman úti ef veður leyfir en við spilum þetta bara eftir eyranu og sköpum skemmtilega stemmingu en þema kvöldsins er,  hattar/húfur og annar höfuðbúnaður, dómnefnd verður á staðnum og verðlaun fyrir flottasta búnaðinn…

Og nú er um að gera að leggja höfuðið í bleyti,  hvað skal maður setja á kollinn???

Sjáumst hress eftir nokkra daga.
F.h. stjórna og nefnda, Soffía Ólafsdóttir, formaður

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *