Nýtt og glæsilegt þjónustuhús opnað á tjaldsvæðinu í Grindavík

Fréttatilkynning:Nýtt og glæsilegt þjónustuhús var opnað á tjaldsvæðinu í Grindavík í síðustu viku.  Þetta 220 fermetra þjónustuhús er í alla staði hið glæsilegasta og hafa tjaldsvæðisgestir í sumar lýst yfir mikilli ánægu sinni með það. Nýtt og sérhannað tjaldsvæði var opnað í Grindavík vorið 2009 og með tilkomu nýja þjónustuhússins er tjaldsvæðið með því allra besta á landinu og þótt víðar væri leitað. Nýja tjaldsvæðið er vel staðsett við Austurveg með fallegt útsýni yfir höfnina. Kostnaður við húsið var á sjötta tug milljóna króna.Sumarið sem tjaldsvæðið opnaði 2009 var gerð viðhorfskönnun meðal gesta. Helstu niðurstöður voru að 98% gestanna voru ánægðir með tjaldsvæðið og töldu það í háum eða góðum gæðaflokki. Um þriðjungur erlendra gesta sem dvaldi á tjaldsvæðinu var annað hvort að koma úr flugi eða á leið í flug. Um þriðjungur valdi tjaldsvæðið til að skoða sig um í Grindavík og nágrenni.

\"\"

Gott orðspor virtist hafa töluverð áhrif á innlenda gesti. Flestar athugasemdir við tjaldsvæðið sem gerðar voru sneru að sturtuaðstöðu og svo þvotta- og eldunaraðstöðu. Tilkoma þjónustuhússins kemur til móts við allar þessar athugasemdir.  Verktaki á nýja þjónusthúsinu var HH smíði í Grindavík en aðalhönnuður arkitekt var Gunnar Páll Kristinsson.

\"\"

Mikill kraftur er í ferðaþjónustu í Grindavík sem hefur eflst undanfarin ár þar sem ný fyrirtæki hafa haslað sér völl. Grindvísk ferðaþjónustufyrirtæki starfa saman undir nafninu Grindavík Experience og hefur sú samvinna gefið góða raun. Grindavíkurbær og Bláa lónið, stærsti ferðamannastaður landsins, vinna nú saman að því að fleiri ferðamenn sem heimsækja Bláa lónið komi einnig til Grindavíkur. Þá er horft til nýs Suðurstrandarvegar en talið er að umferð um hann eigi eftir að margfaldast þegar bundið slitlag verður komið á hann, vonandi fyrir næsta sumar. Tjaldsvæðið er einmitt staðsett við innkomuna til Grindavíkur þegar keyrt er eftir Suðurstrandaveginum.

\"\"

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *